14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Einar Jónsson:

Jeg er samdóma hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að fyrst eigi að hugsa um að brúa stórárnar, eins og Jökulsá og Eyjafjarðará, áður en haldið er inn á þá braut að brúa hinar og þessar smásprænur, sem þurfa brýr á sjálfar sig, en enginn hefir einu sinni heyrt nefndar. Mig furðar á því, að jafnskýr og víðsýnn maður eins og háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) skuli geta verið að flytja þetta frv. Hann hlýtur að gera það eftir vilja kjósenda sinna, en jeg get varla hugsað mjer, að þeir hefðu fyrtst svo mjög við hann, þótt hann hefði fallið frá að flytja þetta, því að jeg hefi aldrei heyrt talað um þessar ár sem stórár, og svo mun vera um fleiri. Jeg vil líka minna háttv. flutningsmenn á það, að enn eru brúarlausar ár á fjölförnum þjóðvegum, sem full ástæða væri til að brúa. Þeir fóru báðir austur yfir fjall um daginn og hafa þá sjeð tvær ár í Ölfusinu, Bakkárholtsá og Gljúfurholtsá, sem báðar eru óbrúaðar. Þótt þær sýnist ekki stórar, þá er mjer kunnugt um, að þær geta orðið lítt færar á vetrum, og er það mjög bagalegt, á jafnfjölförnum vegi. En Hofsá eða Selá hefi jeg aldrei heyrt nefndar sem stórár, og vona jeg, að háttv. þm. geti farið allra sinna ferða til kjósenda sinna, þótt engin brú sje á þeim.

Án þess að halda langa ræðu vildi jeg að eins styðja það, sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að ef þetta frv. verður samþ., þá verður það til þess, að farið verður fram á, að landssjóður kosti allskonar brýr, og niðurstaðan yrði sú, að þingið yrði að samþykkja allar kröfur í þá átt.