14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í C-deild Alþingistíðinda. (3493)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Magnús Pjetursson:

Jeg fjekk að nokkru leyti svar hjá háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) upp á fyrirspurn mína um það, hve miklu sýslan hefði varið til samgöngubóta. Svarið var að vísu ekki beint fullkomið. Hann taldi upp nokkrar brýr, en engar tölur. Um sumar af þessum brúm gat hann þess, að landssjóður hefði kostað þær að öllu leyti, sumar að nokkru leyti, en sumar hefði sýslan aftur bygt á sinn kostnað. Jeg veit nú reyndar ekki, hve mikið þetta segir, en það ber þó vott um, að eitthvað hafi verið gert.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði, að það gæti ekkert fordæmi leitt af þessu frv., því að fordæmið væri komið á undan. Einmitt þessi ályktun háttv. þm. (Þorst. J.) sýnir það, að frv. er hættulegt sem fordæmi. Því að þó að gerðar hafi verið undantekningar með þessar ár, sem hann nefndi, — hvort sem það hefir verið gert með hrossakaupum eða af einhverjum sjerstökum ástæðum, — þá hafa þær undantekningar ekki verið gerðar til að skapa neitt fordæmi. Nú er komin á dálítið ákveðin stefna með brúargerðir. Jeg sje því ekki, hvaða ástæða er til að koma með þetta frv. nú. Ef það hefði verið ætlun háttv. flutnm., að brýrnar væru bygðar á næsta fjárhagstímabili, þá hefðu þær átt að komast inn í fjárlögin. En það mun nú ekki hafa verið tilgangurinn. Þeim mun varla hafa dottið í hug að koma þessum brúm að á undan þeim tillögum, sem landsverkfræðingurinn hefir gert um brýr, sem byggja á í ákveðinni röð, eftir því sem gjaldþol landsins leyfir. Þessar till. eru gerðar 1915, og eftir áætlunum, sem verkfræðingurinn gerði, átti smíðinni á þeim brúm, sem þar er stungið upp á, að vera lokið 1923, ef alt hefði gengið skaplega og hægt hefði verið að halda óhindrað áfram öll árin. Nú má gera ráð fyrir, að brúarsmíðar tefjist allar að minsta kosti 3–4 ár, svo að áætlunum þeim, sem nú þegar eru gerðar, verði ekki lokið fyr en 1926 eða 27. Eftir þann tíma kæmu þá þessar ár fyrst til greina. En hvaða ástæða er þá til að drífa þetta frv. í gegn nú ? Mjer virðist ærinn tími til stefnu, og margt getur breyst á þeim tíma. Nú hefir landsverkfræðingurinn gert áætlun um þá stefnu í brúamálum, sem helst ætti að fylgja í nánustu framtíð. Ef nú ætti að koma á nýrri stefnu og láta landssjóð fara að kosta brýr á sýsluvegum, þá gæti verið meining í því að koma með þingsályktun um það að láta rannsaka allar þær ár á sýsluvegum, sem til tals gæti komið að landssjóður ljeti brúa, og raða þeim svo eftir því, hve brýn þörf kallar að. Það gæti komið til álita að athuga þessa leið, en hitt er fráleitt, að taka fyrir sjerstakar ár og búa til lög um, að þær skuli brúa. Nú er ekki einu sinni sagt, að þessar ár yrðu næstar, þegar núverandi áætlun er lokið, þótt frv. yrði að lögum. Eftir því er hægt að draga að brúa þær svo lengi, að þær yrðu si-íðastar allra. Þaft er komið undir fjárveitingavaldinu, sem þá ræður, hve nær þær verða teknar upp í fjárlögin. (Þór. J.: Þingmenn N.-M. sjá um það) Það verða þá þeir þm., sem þá verða fyrir Norður-Múlasýslu, sem vonandi verða þeir sömu. — En jeg get ekki sjeð, hvaða gagn þeim er að því að koma frv. í gegn nú, nema þá til að geta komið heim með það og sýnt, hverju þeir gátu fengið framgengt. — (B. J.: Ef þeir verða orðnir ráðherrar, þá geta þeir tekið það upp). — Þetta er rjett athugað hjá háttv. þm. Dala. (B. J.). Jeg er hissa, að mjer skyldi ekki detta þetta í hug. — Mjer þætti vænt um að heyra það hjá hv. flm. (Þorst. J.), að hann ætlaðist ekki til, að þessar brýr gengju á undan þeim landsbrúm, sem þegar eru áætlaðar. Og úr því að svo á ekki að vera, þá get jeg ekki sjeð, hvað frv. á að gera. Þeim væri þá ,betra, hv. flutningsmönnum, að fara heim og láta fara að safna í brúarsjóðinn, vita svo, hvort hann yrði ekki orðinn svo stór, að hægt væri að byggja brýrnar án venjulegrar landssjóðshjálpar, þegar sá tími er kominn, að landssjóður gæti farið að snúast við þeim. — Jeg skal ekkert segja um það, hvernig jeg tæki í það, ef fram kæmi sú stefna, að landssjóður ætti að brúa allar ár á sýsluvegum. Enn er hún ekkert undirbúin, og því ekki hægt að kveða upp úr með það.