14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Jón Jónsson:

Að vísu tekur enginn mark á orðum hv. 2. þm. Rang. (E. J.), svo að þess vegna þarf jeg ekki að svara honum. En jeg er hræddur um, að fleiri sjeu ókunnugir og haldi, að hjer sje um hjegóma að ræða, eða smásprænur, eins og hv. 2. þm. Rang. (E.J.) komst að orði í fáfræði sinni. En þessu er ekki svo farið. Það er áreiðanlegt, að það, sem Vopnfirðingar eru nú hugsjúkastir út af, er það, hvernig takast megi að brúa þessar ár, sem er þeim mikill þröskuldur í vegi og þeim er lífsnauðsyn að fá brúaðar. Jeg skal geta þess, til þess að gefa mönnum dálitla hugmynd um árnar, að þær eru báðar töluvert verri en Rangá, sem mest var barist um að fá brúaða hjer á árunum. Yfir Selá er ekki hægt að ferja, þegar hún er í vexti, fyr en niðri við ós; svo ströng og vatnsmikil er hún. Hofsá er lygnari, en við hana eru svo illir bakkar, að ekki er hægt að lenda nema á vissum stöðum, og hún er langan tíma sumars óreið. Jeg vil vekja athygli hv. þm. á því, að hjer er ekki um neinn barnaskap að ræða, heldur um lífsnauðsyn. Jeg fjekk nýlega brjef frá merkum manni, síra Einari Jónssyni á Hofi, sem margir þingmenn munu þekkja sem sanngjarnan og skilríkan mann. Í brjefinu brýnir hann okkur, þm. N.-M., um það, ef mögulegt væri, að fá fjárveitingu nú á þessu þingi, til þess að brúa þessar ár. Nú hefir verkfræðingur rannsakað brúarstæðin og gefið út áætlun um kostnaðinn, en hann er svo mikill, að sýslufjelagið getur ekki int hann af hendi, nema ef til vill með því að safna saman fje í mörg ár eða áratugi. En slík krafa væri ekki sanngjörn gagnvart þessu bygðarlagi, fremur en öðrum bygðarlögum á landinu. Hjer er um að ræða fagra og fjölbygða sveit, sem orðið hefir út undan með fjárframlög úr landssjóði. Ferðalög eru mikil um þessar slóðir, og póstleið liggur hjer um.

Jeg er þakklátur hv. þm. Dala. (B. J.) fyrir það, hve hann tók sanngjarnlega í málið, og vænti, að aðrir hv. þdm. fari að dæmi hans.