14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í C-deild Alþingistíðinda. (3505)

130. mál, útflutningsgjald af síld

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg er þakklátur hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fyrir undirtektir hans undir málið. Þær voru mun betri en jeg bjóst við. Hann tók fram flest hið sama sem stendur í greinargerðinni fyrir frv. Að vísu hafði hv. þm. (M.Ó.) mikið að athuga við tímatakmarkið, sem sett er, hve nær lögin eiga að ganga í gildi. En til þess er því að svara, að þótt gert sje ráð fyrir í frv., að þau skuli ganga í gildi 1. janúar 1918, þá hefi jeg sett það meir til athugunar en hins, að jeg haldi fast við það. Jeg hefi ekki á móti, að tímatakmarkinu sje breytt og lögin lálin koma seinna í gildi en tilgreint er í frv. Hitt er annað mál, að jeg tel frv. vænlegt til að afla landssjóði tekna, þegar fram í sækir. Í bráð er má ske ekki um mikinn tekjuauka að ræða af því. Jeg þykist þess fullviss, að síldarútvegurinn muni stórum aukast hjer við land að stríðinu loknu, bæði hjá innlendum og ekki síst útlendingum. Verða það því ekki smáræðis tekjur, sem frv. þetta á að geta fært landinu, og það að allmiklum hluta frá útlendingum, sem sjálfsagt er að greiði eitthvað fyrir hin miklu hlunnindi, sem þeir verða hjer aðnjótandi. Að vísu tel jeg hjer farið fram á oflágt gjald af síldinni, en tel þó rjett að fara ekki lengra að þessu sinni.

Að svo komnu máli vil jeg ekki lengja umræðurnar, eða rökstyðja meir en jeg hefi gert, hve rjettmætt þetta frv. er. Þa? var áðan eytt oflöngum tíma í umræður um annað mál, og vil jeg ekki brenna mig á hinu sama, þótt þetta sje þýðingarmeira fyrir alþjóð en hitt. Vænti jeg svo, að málið fái að ganga til 2. umr. og til fjárveitinganefndar.