09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í C-deild Alþingistíðinda. (3513)

133. mál, misærisskattur af tekjum

Gísli Sveinsson:

Hv. flutnm. (B.J.) tók það fram, að hann hefði á þinginu 1915 komið fram með samskonar frv. og þetta, til að vega á móti verðhækkunartollinum, eða til að hindra, að hann yrði samþyktur; og nú kæmi hann fram með þetta frv. í sama tilgangi; það ætti að koma í veg fyrir það, að verðhækkunartollurinn yrði framlengdur.

Sennilega mun stjórnin ekki ætla sjer að koma fram með frv. um framlenging verðhækkunartollsins, því að hún hefir snúið sjer til fjárhagsnefndar um að bera fram slíkt frv., en jeg tel það ekki uppljóstur leyndarmáls, þótt jeg skýri frá því, að nefndin vildi það ekki. Það þarf því varla að búast við, að frv. um framlenging verðhækkunartollsins komi frá stjórn nje fjárhagsnefnd, og varla mun þurfa að vænta þess frá einstökum þingmönnum, ef jeg þekki þá rjett. Enda standa sakir svo nú, að þótt einhver vildi nú bera fram frv. um verðhækkunartoll, þá mundi það eiga meira en erfitt uppdráttar. Alt er nú svo á hverfanda hveli með verðlag alt og allan hag landsmanna, að í raun og veru er ekki viðlit að ákveða þann toll svo, að af nokkru viti sje; og í þeim vandræðum sem nú blasa við, sýnist ógerlegt að halda verðhækkunartolli þeim, sem nú er. Hvort stjórn eða einstökum mönnum kann að sýnast tiltækilegt síðar að koma fram með tillögur um verðhækkunartoll, um það skal jeg ekkert segja.

Þegar jeg sný mjer að frv. því, sem hjer liggur fyrir, þá er þess að gæta, að það á eins að gilda meðan misæri er, eins og það er orðað, og skatturinn að sjálfsögðu að falla niður að afstöðnu misærinu. En það gæti vel komið til mála að breyta til frambúðar ákvæðunum um tekjuskatt og afla landsjóði aukinna tekna með því að hækka hann á þeim, sem háar tekjur hafa, en þetta frv. er ekki einhlítt til þess. Hv. atvinnumálaráðh. virtist hallast að frv. þessu, og taldi rjett að taka þaðan mest, sem af mestu er að taka. Um þetta er ekkert að segja. En hitt er undarlegt, að hv. þm. Dala. (B.J.) skuli hafa sniðið frv. sitt eins og það er. Hann vill láta leggja skatt á þá, sem að hans eigin skoðun hafa ekki einu sinni nægilegt sjer til framfæris. Bæði hann og fleiri hafa komið fram með tillögur um dýrtíðaruppbætur, og er það í sjálfu sjer rjettmætt, en hann hefir þá um leið haldið því fram, að á þessum tímum geti heimili eigi komist lífvænlega af með 2.500 kr. árstekjur. Mjer finst því, svo framarlega sem staðhæfing hv. þm. (B.J.) er rjett, ekki vera tiltök að leggja misærisskalt á svo lágar tekjur. (B.J.: Tölurnar eru flytjanlegar). Það er rjett, en hv. þm. (B.J.) hefði þegar átt að vera búinn að breyta þeim frá því, sem hann setti þær í frv. 1915; því að ástæður hafa breyst svo síðan, að full ástæða hefði verið til þess. Það er sjálfsagt satt, að tekjur landssjóðs þyrfti að auka, en mönnum kemur ekki saman um, hvernig það skuli gert. Mjer t. d. sýnist ekki fært að halda verðhækkunartolli þeim, sem nú er.

Þegar jeg ber frv. þetta saman við hin gildandi tekjuskáttslög frá 14. des. 1877, þá vakna hjá mjer nokkrar spurningar, sem jeg bið hv. flutnm. (B.J.) að svara. Jeg spyr hann, hvort það sje tilætlunin, að þeir, sem misærisskattinn greiða, eigi líka að greiða tekjuskatt eftir tekjuskattslögunum frá 1877, því að ekki gerir frv. ráð fyrir, að þeim sje breytt að neinu; þá spyr jeg og, hvort sjerstakar skattanefndir eigi að jafna niður misærisskattinum, því að frv. virðist gera ráð fyrir því, en ekki skattanefndir þær, sem skipaðar eru eftir tekjuskattslögunum frá 1877. Fleira er sjálfsagt að athuga við málið, en jeg sleppi því að þessu sinni, og geri að mínu leyti ráð fyrir, að frv. verði athugað í nefnd.