09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í C-deild Alþingistíðinda. (3514)

133. mál, misærisskattur af tekjum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal leyfa mjer að svara fyrirspurninni í örstuttu máli. Jeg tók það ráð að hafa tölurnar hinar sömu sem áður, ekki af því, að jeg áliti gerlegt að krefjast misærisskatts af þeim, sem varla hafa nóg sjer til lífsviðurværis, heldur fyrir þá sök, að jeg ætlaði nefndinni að ákveða lágmark tekjuupphæðar þeirrar, er gjalda skyldi af misærisskatt. Að jeg fór þessa leið gerði athugun á almennri sálarfræði; jeg er ekki nauðbeygður til að segja hjer, hvaða setning sálarfræðinnar kom mjer til þess, en jeg get sagt háttv. þm. V.-Sk. (G.Sv.) það undir fjögur augu. Jeg ber ekki fram þetta frv. í því skyni, að jeg vilji hafa misærisskatt. En ef stjórnin ætlar sjer að leggja á einhvern aukaskatt, t. d. framlengja verðhækkunartollslögin, þá er þetta frv. mitt bending til hennar um það, á hvern hátt eigi að leggja slíkan aukaskatt á. Þetta er markmið mitt með þessu frv., og þess vegna á þessi misærisskattur eða aukaskattur ekki að breyta neinu um venjulegan tekjuskatt. Um skattanefndirnar er það að segja, að jeg hefi hugsað mjer, að það væri algerlega á stjórnarinnar valdi, hvort hún ljeti þær gömlu skattanefndir eða aðrar nýjar jafna þessum skatti niður. Jeg ætlast til, að þær yrðu öðruvísi en verið hefir, gengju harðar að mönnum og segi t. d. ekki frá, hve mikið fje menn eigi inni í bönkum. Það var einmitt eitt, sem jeg nefndi í flutningsræðu minni og ætla að endurtaka, sem sje það, að jeg tel fjárhagsnefndina færari til þess en sjálfan mig að ákveða nánar um einstök atriði frv., en jeg hef að eins með frv. bent henni á, í hvaða stefnu hún á að halda. Jeg ætlast til, að nefndin taki og geymi þetta frv. og reiði það móti till. um verðhækkunartoll, ef þær koma fram.