09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í C-deild Alþingistíðinda. (3520)

134. mál, veðurathugunarstöð í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það, sem þetta frv. fer fram á, mun þykja nýmæli hjer á landi, en í öllum menningarlöndum eru fyrir löngu komnar á slíkar stofnanir. Öllum mun nú geta komið saman um það, að ef nokkursstaðar er þörf á veðurathugunarstofnun, þá sje það hjer, svo mjög sem aðalatvinnuvegir vorir, landbúnaður og sjávarútvegur. eru háðir veðráttufari og veðrabrigðum. Utanlands eru þessi vísindi, veðurfræðin, og þessar stofnanir Svo langt komnar, að veðurfræðingar segja fyrir veðrabrigði, að vísu ekki alveg upp á stund, en þó töluvert nærri.

Jeg skal geta þess í sambandi við þetta, að ekki er ætlast til þess, að fleiri veðurathugunarstöðvar verði en ein hjer á landi, og hún hjer í Reykjavík. En slíkar smærri stöðvar þyrfti þó að selja á öllum andnesjum landsins. Það nægir ekki að hafa eina stöð hjer, heldur þarf smástöðvar kringum land, t d. á Horni, Langanesi eða Rifstanga, Gerpi og á Reykjanesi eða Snæfellsnesi; þá mundu stöðvarnar koma að miklum notum, auðvitað með því að vera í sambandi við aðalstöðina. Veðurfræðingar ytra eru komnir svo langt, að þeir geta sagt fyrir stórviðri 12 klst., eða þar um bil, áður en þau skella á. Af þessu sjá menn, að þessar stofnanir hljóta að koma að miklu haldi, einkum sjávarútveginum eða sjómönnum; um þessi veðrabrigði þyrfti þá að gefa sjómönnum bendingar eða merki, og til þess þyrfti þá að setja upp viðvörunarstöðvar, sem gæfu merki, sem hægt væri að sjá til langt að. Jeg býst við því, að mest yrðu notin fyrir sjávarútveginn, en þau yrðu þó nokkuð einnig fyrir landbúnaðinn. Útlendir vísindamenn í þessari grein geta sjeð nokkru fyrir mjög miklar úrkomur, og einnig ef þær eru langvinnar. Það hefir mikla þýðing fyrir landbúnaðinn að fá vitneskju um það fyrirfram.

Jeg þarf svo ekki að fara fleirum orðum um frv. Jeg skal að eins benda á það, að ekki er ætlast til þess, að stofnunin sje sett upp nú þegar, heldur svo fljótt sem unt er. Jeg skal og taka það fram, að frv. er ekki samið af okkur flutningsmönnum, heldur var mjer sent það og jeg beðinn að flytja það. Jeg skal leyfa mjer að leggja það til, að frv. verði vísað til mentamálanefndar, að lokinni þessari umr.