12.09.1917
Neðri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í C-deild Alþingistíðinda. (3537)

188. mál, kjötþurkun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að vera margorður um þetta frv., því að jeg þóttist taka fram við fyrri umr. málsins hið helsta, sem um frv. er að segja yfirleitt, en þær einstöku greinar frv. eru svo stuttar og ljósar, að þær ættu naumast að þurfa frekari skýringa við.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að þetta einkaleyfi sje veitt til 15 ára Þetta er nú að vísu styttri tími heldur en umsækjandi leyfisins óskaði eftir. En nefndin hugði þó rjett vera að láta einkarjettinn ekki ná yfir lengri tíma, með það fyrir augum, að þessi maður stæði ekki í vegi fyrir öðrum, ef einhver annar byði betri kosti. Hins vegar áleit nefndin ekki tiltækilegt að hafa tímann styttri en 15 ár, því að kostnaður hlýtur að verða talsverður við að koma fyrirtækinu á fót. Og umsækjandi leyfisins taldi ógjarnan leggjandi út í það, ef um skemri tíma væri að ræða.

Ef menn á annað borð hafa trú á þessu fyrirtæki, þá álítur nefndin, sem fyrir sitt leyti er hlynt málinu, að ekki sje rjett að gera það verulega óaðgengilegt.

Þá er 2. gr., sem kveður svo á, að leyfið skuli framseljanlegt með leyfi landsstjórnarinnar. Þessi grein þarf í rauninni ekki skýringa við. — Það getur margt komið fyrir þennan mann, eins og aðra. Og það væri hart fyrir hann að geta ekki selt þær vjelar, er hann hefir keypt og látið setja upp, ef hann, einhverra orsaka vegna, gæti ekki starfrækt fyrirtækið. En hins vegar er ekki loku skotið fyrir það, að einhver annar vildi kaupa, til að halda fyrirtækinu áfram. — í 3. gr. frv. er tilraunatíminn til fyrirtækisins ákveðinn 3 ár. Þennan tíma vildi umsækjandi hafa lengri, en þó taldi hann ekki frágangssök, að hægt væri að koma fyrirtækinu af stað á þessum tíma. Það er ekki einasta það, að allar vjelar sjeu þá í fullkomnu lagi, heldur kemur þar líka til greina að afla nauðsynlegrar eftirspurnar eftir vörunni og komast að raun um, hvort hægt er að láta hana ná hylli á erlendum markaði. Skemri tíma en 3 ár áleit umsækjandi að ekki kæmi til mála, en hins vegar vill nefndin hafa þennan tíma sem allra stystan.

4. gr. frv. fer fram á, að leyfishafi greiði alt að 10 kr. í landssjóð af hverri smálest af þurkuðu kjöti, sem út er flutt. — Þetta virtist nefndinni vera svo hátt sett, að ekki væri hægt að ætlast til með nokkurri sanngirni, að hann byði hærra gjald. Jeg hefi nú leitað mjer upplýsinga um, hve mikið mundi flytjast út af kjöti, og hefi komist að þeirri niðurstöðu, að það muni fara sem næst 25.000 tunnum. Ef gert er ráð fyrir, að 6 tunnur fari í hverja smálest, þá verða þetta 4.167 smálestir. Og ef nú — til þess að fara vægt í sakirnar — er gert ráð fyrir, að smálestafjöldinn verði alt að helmingi minni, eða sem svarar 2.000 smál., þá verða það samt 20.000 kr., sem landssjóður ætti að hafa upp úr þessu leyfi, vel að merkja, yrði alt útflutt kjöt verkað á þennan hátt. Eins og menn sjá þá er þetta ekkert óverulegt atriði. Og jeg hygg, að háttv. þm. ættu ekki að ganga frá þessu eða vera því mót- fallnir að órannsökuðu máli. — 15. gr. er það tekið fram, að annað gjald en getur um í 4. gr. megi ekki leggja á þá vöru, er leyfishafi framleiðir.

Nefndinni virtist rjett að fyrirbyggja með þessu, að leyfishafa væri ef til vill gert illmögulegt að starfrækja fyrirtækið, með ofþungum sköttum eða öðrum álögum. — Komi það nú í ljós, að stór gróði sje samfara þessu fyrirtæki, þá er í 6. gr. sleginn varnagli við því, að leyfishafi fái að njóta þessara hlunninda altof lengi. Þar er sem sje landsstjórninni gefin sú heimild, að hún geti, að 10 árum liðnum frá því, er einkaleyfið er útgefið, innleyst allar vjelar og alt, sem þessum atvinnurekstri tilheyrir, gegn sanngjörnu andvirði. Með þessu er algerlega loku skotið fyrir það, að hann geti einn haft allan gróða um lengri tíma, ef þetta hepnast vel. Að endingu vil jeg geta þess, að nefndin álítur, að hjer sje svo vel og gætilega um hnútana búið, svo að engin hætta geti af þeim stafað á nokkurn hátt. Leyfishafi er sá eini, sem á nokkuð í hættunni, ef þetta mistekst, og hann er sá, sem ber allan kostnaðinn. Ef aftur á móti þetta gengur vel og ágóði verður í aðra hönd, þá er sjeð fyrir því, að landssjóður eigi kost á að fá mestan hluta hans, eða með öðrum orðum, að landsstjórnin hefir þá í sinni hendi, hvernig um hann fer. Jeg skal svo ekki segja meira að sinni, en vil að eins. vona, að háttv. þm. skoði málið með rjettum rökum og sanngirni.