12.09.1917
Neðri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í C-deild Alþingistíðinda. (3538)

188. mál, kjötþurkun

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg vildi leyfa mjer að gera hjer litla athugasemd, sem jeg bið nefndina að taka til athugunar. Háttv. landbúnaðarnefnd mun vera kunnugt um það, að lög um einkarjettindi munu vera því sem næst samhljóða í öllum löndum. Það er eitt atriði í þessum lögum, sem segir eitthvað á þá leið, að ekki megi veita einkarjett í neinu, sem lýtu að meðferð á matvælum. Mjer er nú að vísu ekki kunnugt um, hvort þetta er ákveðið alstaðar, en jeg hygg, að það sje að minsta kosti víðast hvar. Og þetta mun hafa verið orsök þess, að umsækjandi leyfisins gat ekki fengið það á venjulegan hátt.

Þetta er að eins bending til nefndarinnar, en annars ætla jeg mjer ekki að fara neitt að ræða málið sjerstaklega. Ef þetta er, þá tel jeg dálítið varhugavert að fara að breyta út af almennum reglum í þessu.