25.07.1917
Efri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Magnús Kristjánsson:

Jeg kann ekki við það, að mál þetta gangi umræðulaust í gegnum þessa háttv. deild; tel jeg það ofþýðingarmikið til þess og álít fulla ástæðu til, að það sje tekið til rækilegrar athugunar. Býst jeg við, að frv. þetta sje fram komið út af till. þeirri, er áður var samþykt og afgreidd til stjórnarinnar, um að undirbúa mál þetta fyrir þingið.

En jeg fyrir mitt leyti hefi ekki enn þá sjeð eða sannfærst um ávinninginn af því, þótt landsstjórnin tæki að sjer einkasölu, hvort sem er á steinolíu eða öðrum vörutegundum. Hygg jeg, að til sjeu aðrar leiðir miklu heppilegri til þess að ná því takmarki, sem stefnt er að í frv.

Þar að auki mundi einkasala engu öðru koma til leiðar en því, sem einmitt nú á sjer stað, sem sje því, að landsstjórnin hafi til vörutegundir og versli með þær og haldi þeim í sanngjörnu verði, þegar verslunarfjelög eða einstakir menn, sem með vöruna versla, halda henni í alt ofháu verði. En þessu takmarki, að tryggja landsmönnum sanngjarnt verð á ýmsum vörutegundum, virðist mjer að verði náð með því fyrirkomulagi, sem nú sje á landssjóðsversluninni, sem þó ekki útilokar frjálsa samkepni.

En það er annað, sem athuga þarf í þessu máli. Það er, hvort tilgangur frv. sje ekki ef til vill sá að útvega landssjóði tekjur. Ef svo skyldi vera, þá verð jeg að álíta, að hjer sje að eins um grímuklætt skattafrv. að ræða, og virðist það ekki úr vegi, að því sje gaumur gefinn þegar í byrjun, að hjer er um háan skatt að ræða, sem lenda mundi mestallur á einum atvinnuvegi landsins.

Þess vegna mun jeg leyfa mjer við næstu umr. að koma fram með brtt. við 3. gr. frv., þannig lagaða, að lækka skuli eða fella niður með öllu fjögra kr. gjaldið, sem þar er um að ræða.

Í þessari sömu gr. frv. er annað ákvæði, sem líka er athugavert. Þar stendur, að selja skuli olíuna fyrir það verð, er liðlega svari innkaupsverði og öllum kostnaði. Þetta ákvæði er mjög svo rúmt og ótakmarkað, og getur gjaldið orðið 6 kr. eða meira af hverri tunnu, án þess að brotið sje í bág við ákvæði þessi. Gerum nú ráð fyrir, að verðið væri 30 kr. tunnan. Er það eðlilegt verð, ef miðað er við það, sem var fyrir stríðið. Þá mundi fjögra kr. gjaldið vera því sem næst 14%, og væri nú síðara ákvæðinu fylgt og liðlega reiknaður kostnaður allur, þá gæti svo farið, að gjaldið yrði 20 % og þar yfir.

Við nánari athugun kemur það í ljós, að skattur þessi er tilfinnanlega hár. Á vjelskipi, sem hefir 30—50 hestöfl, mundi hann nema frá 500—1000 kr. á ári.

En nú kunna menn að segja, að þetta komi ekki fram sem neinn skattur, því að landsstjórnin muni geta boðið svo miklu betri kjör en aðrir, sem verslað hafa með vöruna. En fyrir því er engin sönnun, og ekki hefir reynslan staðfest það enn sem komið er.

Býst jeg eins við hinu, að hin sterku fjelög, sem hafa haft olíuverslunina á hendi, muni geta skapað landsstjórninni verð, svo að hún geti ekki selt svo ódýrt, að hagur sje að. En fari nú svo, þá er skatturinn svo þungur, að engin sanngirni getur með því mælt að íþyngja þannig einum atvinnuvegi.

Þess vegna mun jeg, eins og jeg hefi áður sagt, leyfa mjer að koma með brtt. við frv. við næstu umr.