13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í C-deild Alþingistíðinda. (3544)

188. mál, kjötþurkun

Benedikt Sveinsson:

Jeg sje það á tillögum hv. landbúnaðarnefndar, og heyri það á hv. frsm. (St.St.), að nefndin hefir tekið til greina athugasemdir mínar um þetta mál við 2. umr.

Jeg hefi skilið brtt. við 2. gr. svo, að landssjóður hefði forkaupsrjett á einkaleyfinu, en ekki kauparjett yfir höfuð. Það er tekið fram í brtt. við 6. gr., að landið hafi kauparjett á fyrirtækinu eftir 5 ár, en aftur á móti eiga ákvæði 2. gr. að lúta að því, að landinu sje heimilt að ganga inn í kaupið, hve nær sem leyfishafi vill selja.

Brtt. eru allar til bóta, og er því sjálfsagt að samþykkja þær allar, hvað svo sem gert verður við frv. á eftir. — Hjer verður að athuga það vel, að það er varhugavert að samþykkja slík einkaleyfi. Þau geta orðið til þess að hefta frjálsa samkepni í landinu og frjálsa framkvæmd í atvinnurekstri. Hjer er þó um svo skamman tíma að ræða, að ekki ætti að verða mein að. En það er ekki nóg, að „vera ekki viss um, að einkaleyfið valdi skaða“. Vjer eigum einmitt að vera vissir um, að leyfið verði ekki að skaða.