13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í C-deild Alþingistíðinda. (3545)

188. mál, kjötþurkun

Bjarni Jónsson:

Hjer er ekkert um það að ræða að veita einkaleyfi til að hagnýta gæði landsins, Jeg er ekki viss um að jeg mundi verða með slíku einkaleyfi. Hjer er einungis um að ræða að veita einkaleyfi til að nota vissa aðferð til að koma keti óskemdu til útlanda.

Háskinn, sem í þessu getur falist, verður aldrei annar en sá, að þetta verði svo dýrt, að ekki borgi sig að reka þessa atvinnu, og því komi aldrei neitt í landssjóðinn.

Það nær ekki nokkurri átt að tala í þessu sambandi um, að þetta sje sjerstök meðferð á matvælum, og því megi ekki veita þetta einkaleyfi. Það gildir líkt um þetta og þurkun á fiski o. fl., sem aðrar þjóðir veita einkaleyfi til.

Það er líklegt, að þessi maður þyrfti að kaupa talsvert af kjöti og þurka það, til þess að geta sent sýnishorn til annara landa, en ekki er hægt að búast við því, að á næstu árum verði mikill markaður fyrir þannig hagnýtt kjöt. En ef nú yrði ofmikill gróði á því, þá bætir brtt. hv. þm. N.-Þ. (B.Sv.) úr því, með því að heimila landsstjórninni að kaupa fyrirtækið með öllum áhöldum eftir 5 ár. Það getur því aldrei orðið að neinum skaða að veita þetta einkaleyfi, en getur orðið að miklu gagni, því að þetta er hliðstætt því að frysta kjöt. Það þarf nefnilega að bleyta kjötið upp aftur, áður en það er matreitt, og á það þá að verða sem nýtt.