13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í C-deild Alþingistíðinda. (3549)

188. mál, kjötþurkun

Frsm (Stefán Stefánsson):

Það hefir komið fram í umræðunum, að hættulegt geti verið að veita þetta leyfi. Þessi verkunaraðferð er áður óþekt, svo að það er næstum óhugsandi, að einkaleyfi um svona skamman tíma geti orðið hættulegt landsmönnum. Hins vegar er hjer um tilraun að ræða, sem gæti haft mjög affarasælar afleiðingar fyrir kjötframleiðendur hjer á landi. Það getur orðið bændum beinn gróði, ef hún tekst. Það væri því sama og að girða fyrir þennan gróðamöguleika, ef leyfið væri ekki veitt. Nei! Landsmenn eru yfirleitt ekki í hættu. Sá, sem er í hættu, er leyfishafi sjálfur. Hann leggur í kostnað, án þess að hafa nokkra vissu fyrir að fá hann bættan.

Það mun ósk samnefndarmanna minna, að málið verði tekið af dagskrá, og óska jeg þá þess, að svo verði.