15.09.1917
Neðri deild: 61. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í C-deild Alþingistíðinda. (3553)

188. mál, kjötþurkun

Einar Arnórsson:

Jeg skal vera mjög stuttorður. Hefði jeg vel getað sparað mjer ómakið, ef ekki hefði verið heldur beinst að mjer, í sambandi við þetta mál.

Um brtt. má segja, að þær eru yfirleitt til bóta, þótt 1. gr. veiði nokkuð óviðkunnanlega orðuð, ef 1. lið í brtt nefndarinnar á þgskj. 922 er skeytt aftan við 1. gr.

Jeg hefi ekki haldið því fram, að það væri beinn vansi eða þjóðarháski, þótt frv. næði fram að ganga. En hinu hefi jeg haldið fram, og held fram, að það sje varhugavert fyrir löggjafarvaldið að veita leyfi, sem er viðtækara en „patent“-veitingar í öðrum löndum. Í sambandi við það hefir einn háttv. þm. nefnt til samanburðar bæði saltleyfi Páls Torfasonar og járnsandsleyfi Þórarins Guðmundssonar og fjelaga hans. Jeg var ekki á þingi þegar saltleyfið var veitt, en aftur var jeg kominn á þing er járnsandsleyfið var veitt. Var jeg þá sömu skoðunar og nú, og greiddi því atkv. gegn frv. og mælti á móti því.

Jeg skal játa, að það kunni að vera rjett, að frv. þetta sje ekki skaðlegt, en þó má nota það fyrir brask. Jeg vil raunarekki segja, að þessi maður muni gera það, en veit, að aðrir hafa notað slík leyfi þannig áður. Enginn háttv. þm. hefir enn getað hrakið það, sem jeg hefi sagt um veitingu „patenta“, enda hygg jeg, að þeir hafi ekki athugað það betur en jeg. Jeg verð að halda því enn fram, að frv. brjóti í bága við það, sem almenn „patent“-lög heimila.

Annars virðist brtt. háttv. þm. V.-Sk. (G.Sv.) játning á því, er jeg hefi fundið frv. til foráttu. Hann vill útiloka framsalsleyfi. Hvers vegna? Til þess að útiloka, að braskað sje með leyfið í útlöndum, og er hún þess vegna frv. til bóta, en breytir ekki þeirri stefnu, er frv. byggist á, eða stefnuleysi þingsins í þessum efnum. Jeg er þess vegna á móti frv. og vil mælast til, að sú rökstudda dagskrá, er jeg hefi áður fram borið, komi undir atkvæði.

Eitt atriði vildi jeg taka fram að lokum. Það er það, að jeg gerði stjórn Búnaðarfjelagsins ofurlítið rangt til með því að jeg sagði, að ekkert væri að byggja á umsögn þess. Þetta vildi jeg leiðrjetta að því leyti, að í enda brjefsins stendur, ef jeg má lesa það upp:

„Að endingu viljum vjer taka það fram, að vjer göngum að því vísu, að landsstjórnin veiti ekki leyfið nema því að eins, að hún hafi tryggingu fyrir því, að fje verði lagt til framkvæmda, svo að ekki fari um þetta einkaleyfi eins og ýms önnur einkaleyfi, sem veitt hafa verið á síðustu árum“.

Ef nú frv. verður að lögum, og það kemur til kasta stjórnarinnar að veita leyfið, vil jeg leggja áherslu á þetta atriði.