15.09.1917
Neðri deild: 61. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í C-deild Alþingistíðinda. (3557)

188. mál, kjötþurkun

Bjarni Jónsson:

Það er víst alls ekki rjett, að það sje móti löggjöf annara landa að veita þetta leyfi, og jeg verð að segja, að ef þessu frv. má líkja við svefngöngu, þá mun mega heimfæra fleira í löggjöfinni undir svefn. Jeg vona, að bæði jeg og hv. 2. þm. Árn. (E.A.) komumst ómeiddir frá þessu máli, en það er margt annað, sem jeg vildi síður ábyrgjast.

Hv. þm. V.-Sk. (G.Sv.) hefir tekið fram, að þetta er á tilraunastigi, og hins vegar er það vitað, að markaður verður ekki orðinn svo mikill á næstu árum fyrir þannig verkaða vöru, að eigi sje skaðlaust að veita leyfið. Það er alls ekki, eins og hv. 2. þm. Árn. (E.A.) virðist halda fram, merki þess, að málið sje óvænlegt, heldur sýnir þetta, að hjer er eigi verið að gera tilraun til að fleka sig inn í svo arðvænlegt gróðafyrirtæki, og þess vegna hættulaust að veita leyfið, en getur hins vegar komið til leiðar hagkvæmari meðferð á þessari vöru til útflutnings, er svo stendur opið að taka, hve nær sem er, ásamt öllum tækjum og tilfæringum, með því móti, að maðurinn sje skaðlaus haldinn, svo að frv. er meinlaust, hvernig sem á er litið. Eru mjer því með öllu óskiljanleg þau mótmæli, er fram hafa komið, og fæ jeg ekki sjeð, að það, sem hjer er á ferð, stríði á nokkurn hátt á móti almennum reglum annarsstaðar og hjer, þar sem menn haga sjer ætíð eftir aðstæðum. Og í verslun og atvinnuvegum vorum getur vel verið nauðsynlegt að fara þá leið, sem ekki er til annarsstaðar. Þetta heyrir alveg undir íslenskt löggjafarsvið, og er í engu brotinn rjettur á annari þjóð.