08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

145. mál, íslenskur fáni

Flm. (Karl Einarsson):

Jeg vil fyrst geta þess, að það hefir slæðst villa inn í frv. Konungsúrskurðurinn um gerð fánans er talinn dagsettur 23. nóv. 1913, í stað 19. júní 1915, en það mun verða leiðrjett fyrir 2. umr. málsins.

Að öðru leyti skal jeg reyna að vera stuttorður.

Jeg ætla ekki að fara að færa rök til þess, hvers vegna við höfum ekki fyrir löngu selt lög um þetta mál. Það þarf ekki; enda myndi það ekki auka þessu máli neitt fylgi að fara að rifja það upp nú.

Jeg ætla ekki heldur að færa mörg rök fyrir því, hvern rjett vjer höfum til þess að hafa eiginn farfána; það eitt er nægilegt, að verslunar- og siglingamál vor eru af Dönum jafnvel viðurkend að vera löggjafarmál vor. Enn fremur má tilfæra þá sannreynd, að vjer erum einnig af Dönum viðurkendir, og af öllum öðrum, sem til þekkja, sem sjerstök þjóð, með sjerstaka tungu, sjerstaka menningu og sjerstaka löggjöf. Þá höfum vjer nú og fengið viðurkenning Dana og annara þjóða fyrir því, að vjer megum og getum sjálfir gert samninga um verslun og siglingar á eigin spýtur við aðrar þjóðir, og er það einmitt skýrt tákn þess, að vjer höfum alveldi í þeim málum.

Það væri því meira en undarlegt, ef vjer notuðum ekki hið góða tækifæri um leið og þetta er viðurkent í verkum, til að kippa þessu mikilsverða máli í lag, því að sýnulegu táknin um sjerstöðu vora og sjálfstæði hafa hvað einna mesta þýðingu í augum annara, en slíkt sýnilegt tákn er einmitt fáninn.

Þá vil jeg með nokkrum orðum víkja að því, hversu lífsnauðsynlegt oss er, eins og nú er ástatt í heiminum, að geta sýnt með þessu sýnilega tákni, að vjer ráðum siglingum vorum og verslun sjálfir að öllu leyti.

Enginn veit áður lýkur hverjar þjóðir kunna að flækjast í þessa geigvænlegu styrjöld, sem nú geisar um heiminn. Þar getur komið, að oss sje það alveg nauðsynlegt að sýna, að vjer getum haldið oss skýrt aðgreindum frá öllum öðrum þjóðum, því að tæplega myndi sú þjóð finnast, sem vildi oss mein gera eða ekki hjálpa oss eftir mætti til að halda lífi. Öðru máli er að gegna, ef á oss yrði litið sem hluta úr annari þjóð, sem hennar undirlægjur; því að þá færi auðvitað um oss, svo sem hugur þeirrar þjóðar, sem „faktiska“ valdið gæti fengið yfir oss, stæði til þessarar „yfirþjóðar“ vorrar, eða „aðalþjóðarinnar“.

Allir menn sjá, hve þetta er afarhættulegt; það þarf ekki frekari skýringa við.

Jeg get ekki vænst þess, að nokkur neiti þessu, nje fari að vefengja rjett vorn og þörf í þessu efni; en þá kem jeg að því í málinu sjálfu, sem að oss lýtur, og það er einurð vor og samhugur.

Vilji vor verður að koma fram skýrt og einbeitt; vjer verðum að standa sem einn maður í þessu máli, ekki fallandi á knje og biðjandi, heldur láta látlaust og skýrt í ljós kröfur vorar og halda fast við, að þetta sje rjettur vor, að fá viðurkendan fána vorn.

Það er nú einnig svo, að vjer höfum fylstu ástæðu til að ætla, að Danir, og þá sjerstaklega hans hátign konungur vor líti svo á þetta mál vort, að þeir vilji nú unna oss þessa þjóðernismerkis vors; enda mundi það síst skerða samhug vorn til þeirra; þvert á móti mundi það öllu fremur tengja oss fastar við þá í bróðurhug og samheldni.

Það er von mín og vissa, að það verði hans hátign konunginum mjög hugnæmt og hugþekt að verða við óskum vorum í þessu efni, vitandi, að það er oss svo mikils varðandi og að hann yrði oss því hjartfólgnari, og þjóðin, sem hann og er konungur yfir, því hugþekkari.

Frekara ætla jeg ekki að segja um þetta mál nú, en mun við aðra umr. koma að einstökum atriðum þessa máls, ef þörf krefur.

Jeg veit, að háttv. deild muni taka þessu máli vel, og ef tillaga kemur fram um að vísa málinu í nefnd, að umr. lokinni, þá hefi jeg ekkert þar við að athuga, en óska, að þá yrði kosin sjerstök nefnd í málið.