31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í C-deild Alþingistíðinda. (3582)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Forsætisráðherra (J.M.):

Mjer er ekki allskostar ljóst, hvernig háttv. flm. (S.S.) ætlast til þess, að verðlagið verði felt úr gildi, nema því að eins, að ráðuneytið sjálft telji það oflágt. Þetta verð hefir verið sett samkvæmt lögum af verðlagsnefnd, sem skipuð hefir verið samkvæmt lögum, og stjórnarráðið getur ekki farið að fella það úr gildi, nema því þyki það ósanngjarnt. Nú er stjórnarráðið ekki þeirrar skoðunar, að verðið sje oflágt, svo að ef mönnum þykir það oflágt og vilja fá því breytt, þá væri rjettast að bera það fram í frumvarpsformi.

Það getur verið rjett, að bændum sje örðugt um að framleiða smjör nú, en mjer er sagt, að skorturinn stafi ekki af hámarksverðinu, heldur af því, að það sje ekki hægt að framleiða smjörið. Mjer hefir verið sagt, að í Borgarfirði sjeu kýr nýlega farnar að græða sig, vegna þess, að veturinn var svo bágur og vorið hart.

En ef smjör er selt hærra verði en þetta, þá er ekki rjett að kaupa það hjer innanlands, því að hægt er að fá jafngott smjör innflutt ódýrara, þrátt fyrir þann dýra flutning, sem nú er. Frá Danmörku má nú fá smjör á kr. 1,72 pd. hingað komið.

Ef menn vilja banna hámarksverðið, væri rjettara og róttækara að taka af lögin. Háttv. flm. (S.S.) sagði, að vegna verðlagsins gætu fátæklingar ekki keypt sjer smjör. Jeg held nú, að þeir muni því síður kaupa það, ef hámarksverðið væri fært upp.

En jeg verð að leggja sjerstaka áherslu á það, að ef háttv. deild treystir ekki hámarksverðinu, þá verði að fara lagaleiðina, því að sannfæring um oflágt smjörverð getur deildin ekki gefið stjórnarráðinu, svo framarlega sem það hefir hana ekki sjálft til að bera.