31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í C-deild Alþingistíðinda. (3587)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Jörundur Brynjólfsson:

Af því að jeg á sæti í verðlagsnefnd, finst mjer það vera mjer skylt að skýra frá, hvers vegna verðlagsnefndin setti hámarksverð á smjör.

Eins og hæstv. forsætisráðh. tók fram var smjörverð hjer í bæ komið upp undir 2,50 kr. pundið, en bændur fengu samt ekki svo mikið fyrir það, því að milliliðir stungu nokkru af þessu í sinn vasa. Þegar smjörið var komið í þetta háa verð, var verðlagsnefndinni ljóst, að verðið var óhæfilega hátt. Þessi verðhækkun varð ekki alt í einu, því að lengi vel var verðið um 2 kr. til 2,25. Verðlagsnefnd var nú þeirrar skoðunar, að best væri að reyna að komast hjá því að verðleggja vöruna, og ljet þá skoðun uppi við stjórnarráðið. Svo fór samt, að hjá því varð ekki komist að setja hámarksverð á smjörið. Smjörið hafði selst þá um langa stund hjer í bænum á kr. 2,30, alt að kr. 2,50 pundið. Viðbitsekla var orðin mikil hjer í bænum. Smjörlíki fjekst ekki, og engar siglingar voru. — Þetta hleypti smjörverðinu upp. Hins vegar mælti engin sanngirni með því, að smjörverðið væri þetta hátt. Þegar svo kom til okkar kasta um að leggja verð á smjörið, reyndum við að afla okkur upplýsinga um þessa vörutegund og jafnframt að kynna okkur, hve mikið aðrar lífsnauðsynjar hefðu hækkað í verði hjer og í öðrum löndum. Jeg skal leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp samanburð á hækkun lífsnauðsynja hjer og í nokkrum nálægum löndum:

Reykjavík (í febr.) um 100 %, Kristjanía (í febr.) 102 %, Stokkhólmur 100%, Kaupmannahöfn 86%.

Þetta er nú meðaltalshækkun helstu lífsnauðsynja í þessum löndum. Hámarksverðið var ekki sett á smjör fyr en 23. mars. Áður en til þess kom, að við settum það, höfðum við kynt okkur verð á smjöri hjer og erlendis, eftir skýrslum, sem við fengum, að vísu ekki alveg nýjum; þær voru frá því í febrúar. (B. J.: Á þingmaðurinn sæti í nefndinni?) Já. (B. J.: Guð hjálpi honum þá!) Það vona jeg að hann geri. Nam hækkun á rjómabússmjöri hjer 68% með því að ákveða kr. 1,65 fyrir ½ kg. Hækkun á heimagerðu smjöri varð á sama hátt 67%, þegar ½ kg. var sett á kr. 1,50. Í Kristjaníu hafði rjómabússmjör hækkað um 52%, í Stokkhólmi líka 52%. (B. J.: Var það í peningum?) Já, vitanlega. (B. J.: Þá er þetta lækkun á peningunum, en ekki hækkun á smjöri). Og í Kaupmannahöfn 65%.

Þegar hámarksverðið var svo sett á, tókum við tillit til þess fyrst og fremst, hvað okkur virtist framleiðslukostnaður hafa aukist hjer, og svo í annan stað, hvað væri fáanlegt fyrir smjörið á erlendum markaði, ef það hefði komist þangað. Annars var okkur mjög óljúft að leggja verðlag á smjörið, og við vildum á engan hátt þröngva kosti framleiðenda, en þegar svo var komið, að okur var orðið á smjörinu, þá máttum við til með að taka í taumana. Verðlagsnefndin ákvað, að verðlagið skyldi gilda um alt land, en skömmu síðar fjekk nefndin tilmæli um það frá einum lögreglustjóra á landinu, að hann fengi leyfi til að birta ekki ráðstöfun nefndarinnar í lögsagnarumdæmi sínu, sökum þess, að ákvörðun nefndarinnar hækkaði smjörverðið. Þetta sýnir það, að smjör var ekki úti um land í nærri því eins háu verði og í Reykjavík, og til skamms tíma hefir það verið selt á Norður- og Austurlandi á kr. 1,25 ½ kg. — Þessi óánægja út af verðinu á smjörinu hefir aðallega átt sjer stað í Árnessýslu og ef til vill eitthvað í Rangárvallasýslu.

Eins og jeg gat um áðan þá kynti verðlagsnefndin sjer vandlega framleiðslukostnaðinn á smjöri, áður en hún ákvað hámarksverðið; meðal annars leitaði hún álits eins manns úr Árnessýslu, sem er mjög handgenginn smjörbúunum þar. Hámarksverðið var ákveðið samkvæmt tillögum hans, en þegar svo hámarksverðið var komið, þá vakti það þegar í stað óánægju. Nokkru síðar var sendur hingað til bæjarins maður að austan, frá Smjörbúasambandi Suðurlands, til þess að reyna að komast að samningum við stjórnarráðið og verðlagsnefnd um, að hún hækkaði verðið á smjörinu. Hann gat þess, að framleiðsla á smjörinu væri nú dýr, og auk þess kvað hann L. Zöllner, stórkaupmann, hafa boðið að kaupa smjör á 2 kr. ½ kg. til útflutnings, ef útflutningsleyfi fengist. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að síðasta sending hjeðan, sem seld var í Englandi, seldist á kr. 1,49 ½ kg. Nefndin leitaði nú upplýsinga um þetta hjá Zöllner, og tjáði hann sig aldrei hafa boðist til að kaupa smjör á kr. 4,00 kg., heldur til að borga smjörið sama verði og það væri þá selt í Reykjavík. Það sjá allir, að þetta er ekki sama og sendimaðurinn hafði sagt. Það varð þó að samkomulagi, að nefndin nokkru síðar hækkaði verðið svo, að það er nú komið upp í kr. 3,60 kg. fyrir rjómabúsmjör. Háttv. 1. þm. Árn. (S, S.) sagði, að bændur væru mjög óánægðir með þetta hámarksverð. Þeir fengju þó miklu lægra verð fyrir smjörið ef þeir sendu það á erlendan markað. Nú er smjörverðið í Englandi hækkað um 70% síðan fyrir stríðið; það svarar til þess, að rjómabúsmjör hjeðan seldist á kr. 3,30 kg. þar; menn fengju því netto um kr. 3,10 fyrir kg„ en hjer fá þeir kr. 3,60 og vilja fá kr. 4,00 eða meira. Jeg skal engan dóm leggja á það, hve framleiðslukostnaður bænda er mikill, en hitt fullyrði jeg, að smjörið geti þeir hvergi selt nú fyrir meira verð en hjer, þótt þeim stæði opin leið með það á heimsmarkaðinn, og væri þess nokkur kostur að ná útlendu smjöri hingað, þá yrði það ódýrara, þótt dýrt sje nú að flytja milli landa. Danskt herragarðssmjör kostar nú í Kaupmannahöfn í kringum kr. 1,62 ½ kg. Hingað komið mundi það kosta kr. 1,75 eða minna hvert ½ kg.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að nokkrum atriðum, er flm. tillögunnar hafa sagt. Háttv. 1. þm. Árn. (S.S.) sagði, að aðgerðir nefndarinnar hefðu dregið mjög úr smjörframleiðslunni. Þetta má vel vera rjett, en það er ekki af því, að bændurnir geti nokkursstaðar annarsstaðar fengið hærra verð fyrir smjörið en þetta. Þess vegna var það í fylsta máta ómaklegt, er hann (S.S.) sagði, að það væri hart að banna fyrst útflutning og síðan setja hámarksverð á vöruna. Hefði verðið verið ákveðið lægra hjer en það var annarsstaðar, þá gat verið ástæða til að kvarta yfir hámarksverðinu, en svo var nú ekki. Hins vegar leit verðlagsnefndin svo á, að nauðsynlegt væri, og henni skylt, að sjá um, að þessi nauðsynjavara, sem aðrar, færi ekki upp fyrir alla aðgæslu. Og því neita jeg fastlega, að verðlagsnefndin vilji á nokkurn hátt skóinn niður af bændum, eins og háttv. flm. (S.S.) gaf fyllilega í ljós.

Háttv. flm. (S.S.) sagði, að það þyrfti að færa smjörverðið allmjög upp. Jeg veit ekki, hve hátt hann vill koma því, en hitt veit jeg, að það er þröngur kostur að kaupa smjörið dýrara en það er nú, en auðvitað er það þó betra fyrir þá, er fje hafa, en algerður skortur.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að samningar stjórnarinnar við Sláturfjelag Suðurlands bentu á það, að stjórnin teldi verðið oflágt á smjörinu. Þetta er ekki rjett. Samningarnir þurfa ekki að benda á neitt annað en að stjórnin vilji reyna með öllu móti að gera bændur ánægða, svo að þeir hætti ekki að framleiða smjörið.

Um úthlutun á smjöri er jeg alveg samdóma háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), og skal jeg því sleppa að minnast nokkuð á það atriði.

Þá kemur háttv. þm. Dala. (B.J.). Hann drap á það, að nauðsynlegt væri að setja hámarksverð á útlendu vöruna, ekki síður en hina innlendu. Það getur nú verið mikið til í þessu. En þá afsökum hefir nefndin, að nær ómögulegt er að gefa fastar reglur um slíkt, því að innkaupsverðið er svo mismunandi og flutningsgjaldið sömuleiðis. Nefndin hefir í þessu efni gert það sem hægt var. Hún óskaði þess, að lögreglustjórar sendu henni skýrslur um, það, ef verð einhverrar útlendrar vöru hækkaði að mun, og þessar skýrslur átti að senda einu sinni í mánuði, og þar að auki óskaði nefndin þess, að lögreglustjórar ljetu sig vita símleiðis um verðhækkanir á nauðsynjavörum, ef þeir teldu þess þörf. Og nú er ákveðið, hvað kaupmenn mega mest leggja á nauðsynjavörur þær, er landssjóður lætur þá fá. Þeim er nú heimilt að leggja 10% á það verð, sem varan kostar þá, komin til þeirra. Í þessari ráðstöfun á verðlagsnefndin nokkurn þátt, því að það var gert eftir uppástungu hennar.

Það er mikið til í því, sem háttv. sami þm. (B. J.) sagði um vöruskiftin, að takmarka verðlagið eitthvað við slíka verslun. En við höfðum ekki hugmynd um slíka verslun, og fengum heldur engar bendingar um hana. En þessu mætti enn kippa í lag.

Þá skal jeg loks fara örfáum orðum um þá staðhæfingu, að rjómabúsmjör sje ekkert betra en heimagert smjör. Jeg skal játa það, að jeg þekki heimili, sem kunna svo vel smjörgerð og fara svo hreinlega með mjólk, að jeg kysi heldur smjör frá þeim en rjómabússmjör. En þegar kemur svo til þess að greiða þessum heimilum hærra verð fyrir smjörið en öðrum, þá eru svo margir agnúar á því, að í framkvæmdinni reyndist það ómögulegt.

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að efnarannsóknarstofan hefir rannsakað 38 sýnishorn af íslensku heimagerðu smjöri.

Mest vatn var 29,15 %

Minst — — 11,36%

Meðaltalið var 19,87%

Sömuleiðis var rannsakað 41 sýnishorn af íslensku rjómabússmjöri.

Mest vatn var 23,70 %

Minst — — 12,95 %

Meðaltalið var 18,10 %

Þessi rannsókn sýnir, að rjómabússmjör er yfirleitt vatnsminna en heimagert smjör og hefir því allmikið meira næringargildi.

Enn skal jeg geta þess, þeim til huggunar, sem tala um, að smjörið sje lágt í verði, að samkvæmt síðustu skýrslum er smjörið hið 13. í röðinni af nauðsynjavörum að verðhæð, saman borið við næringargildi þess; útlendu kornvörurnar rándýru eru samt, þrátt fyrir alt, ódýrasta fæðan, sem við höfum nú til að lifa á. Innlendu vörurnar (kjöt, smjör og fiskur) með því allra dýrasta, sem við neytum, eftir næringargildi talið.