31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í C-deild Alþingistíðinda. (3589)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Magnús Pjetursson:

Það er nú búið að segja mest af því, sem jeg ætlaði að segja.

Jeg skal þá fyrst og fremst geta þess, að jeg er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra um það, að ekki geti komið til mála að samþykkja þessa tillögu, eins og hún er orðuð.

Fyrir þá, sem fá vilja leiðrjettingu í þessu efni, er ekki um annað að tala en að afnema alveg lögin um verðlagsnefndina, og mundi jeg ef til vill geta fylgt þeim í því. Jeg get sem sje ekki sjeð, hvert gagn hún hefir unnið, að minsta kosti ekki með smjörverðið. Úti um landið hefir hún gert ilt eitt þeim, sem kaupa þurftu vöruna, og þeim, sem átti að gagna, því að smjörverð var fyrir neðan hámarksverðið, áður en það var ákveðið, og hækkaði við það, þar sem jeg þekki til, um 50—60 aura kg. Hámarksverðið varð þannig lágmarksverð.

Tillögu þessa verður nú að fella, eins og áður er sagt, en jeg teldi eðlilegast, að hún væri tekin aftur.