31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í C-deild Alþingistíðinda. (3591)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Benedikt Sveinsson:

Afskifti verðlagsnefndar af smjörverðinu hafa ekki orðið að neinum notum. Smjörverðið hefir þvert á móti hækkað fyrir bragðið. Enda er það eðlilegt, þar sem hámarksverðið hefir haft þau áhrif, að smjörframleiðsla hefir stórum minkað. Það hefir meðal annars dregið úr því, að menn færðu frá. Það er hvorttveggja, að afrek nefndarinnar valda því, að ekki er til smjör nema lítið eitt, og að verðið á því getur ekki lækkað í sumar. En áður voru líkur til, að smjörverðið lækkaði, þar sem vænta mátti, að smjörframleiðslan myndi stórum aukast með sumrinu. Í annan stað hefir hámarksverðið ekki náð tilgangi sínum, þar sem farið er í kringum ákvæði nefndarinnar. Afskifti hennar af smjörverðinu mega því teljast verri en gagnslaus. Jeg vil því styðja till. þá, er fram er komin. Heppilegra hefði kann ske verið, að hún hefði komið fram í öðru formi, og jafnvel mælt svo fyrir, að verðlagsnefndin skyldi afnumin með öllu.

Það mun varla hægt að gera nokkrar ráðstafanir til þess, að smjörframleiðslan aukist í sumar. Nú er orðið ofseint að færa frá. En stríðið stendur að öllum líkindum ekki skemur en eitt ár enn, og ber því nauðsyn til að skera niður allar hömlur, sem á því eru, að framleiðslan verði sem mest að sumri. Enginn vafi er á, að hámarksverðið hefði sömu afleiðingar að sumri og það hefir nú, og því þarf að afnema það. Smjörbúin mætti og styrkja með tillagi 1918, t. d. 10 þús. kr., eins og ráðuneytið hafði í huga. Það væri ekki úr vegi, að fjárveitinganefndin athugaði þetta.

Satt að segja virðist verðlagsnefndin ekki hafa orðið til neins gagns. Sagt er þó, að sumir kaupmenn hafi verið óttaslegnir við hana, og því ekki fært upp vöruverðið eins og þeir annars hefð; gert. Þetta kann að vera rjett, en það er þá líka eina gagnið, sem orðið hefir að nefndinni. Hún hefir ekkert skift sjer af verði á útlendri vöru. T. d. hefir sannast, að í amerísku smjörlíki, sem hingað hefir verið flutt, hefir verið 14% af salti, en á að vera 4%. Ekki hefði verið úr vegi, að verðlagsnefndin setti verð á þetta smjörlíki, eða bannaði sölu á því.

Rjettast væri að hverfa frá öllu þessu nefndabraski, sem átt hefir að bæta úr styrjaldarvandræðunum. Þær hafa drjúgum aukið óáran í landinu, valdið óþarfa útgjöldum fyrir landssjóð og auknum álögum á landsmenn. Það er því eitt, sem bjargráðanefndin ætti að athuga, hvort ekki væri hægt að losna við eitthvað af óþörfum nefndum.