31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í C-deild Alþingistíðinda. (3594)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Jörundur Brynjólfsson:

Að eins örstutt athugasemd. Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) átaldi verðlagsnefndina fyrir að hafa ekki haft meiri afskifti af nauðsynjavörum yfir höfuð. Því er fyrst þar til að svara, að í valdi verðlagsnefndar stóð ekki að ákveða verð á útlendri vöru um land alt, í einni svipan. Jeg gat þess í „prívat“-samtali við einn ráðherranna, skömmu eftir að siglingabannið hófst, að þess mundi full þörf, að ákveðið yrði af stjórnarráðinu, hvað menn mættu mest leggja á útlenda vöru. Og ætti stjórnin að ákveða það nú þegar og tilkynna.

Það er talað um, að stjórnin hefði getað selt ódýrara. Sumstaðar hafa kaupmenn nú samt ætlað sjer að selja vörur sínar með talsvert hærra verði. Við Breiðafjörð neituðu kaupmenn til dæmis að selja landssjóðssykur, og ætluðu að selja sykur, sem þeir áttu, enn hærra verði. Þá greip þó verðlagsnefndin fram í. Eins var í Hafnarfirði um sölu á margarine. Hjer í Reykjavík fylgdist nefndin með sölu á margarine, alt þar til er þing byrjaði. Síðan höfum við 2 nefndarmenn, sem á þingi sitjum, ekki haft tíma nje tækifæri til þess eins vel og áður. Það verður því ekki hægt að álasa nefndinni fyrir, að hún hafi ekki reynt að hafa hemil á verðlaginu. Hitt getur verið, að hún sje ekki skipuð nógu duglegum mönnum. Það skal jeg ekki dæma um.

Hv. 1. þm. Árn. (S.S.) sagði, að jeg hefði gefið ranga skýrslu um gerðir verðlagsnefndar. (S. S: Misheyrn!) Var það misheyrn, að jeg hefði gefið ranga skýrslu um verðlagið? (S.S.: Jeg sagði langa skýrslu). Það var óþarfi að finna mjer það til foráttu, ef skýrslan er rjett. Sami hv þm. (S.S.) drap á skýrslu þá, er jeg gaf um vatns „procentuna“ í rjómabússmjöri; sagði, að hún væri einhliða. Hún er gerð af efnarannsóknarstofunni hjer í Reykjavík, og get jeg ekkert um hana sagt, nema jeg hygg, að hún sje eins vel gerð og unt er. Jeg get ábyrgst, að tölurnar eru rjett hermdar af mjer. En hvort þetta smjör hefir verið hálfhnoðað kemur ekki málinu við. Það er rjómabúanna sök. Annars sýndi meðaltalið á rjómabússmjörinu, að það stóðst ekki þá kröfu, sem gerð er á erlendum markaði, þar sem í því voru 18%, í stað 16%.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði um margarine frá Ameríku. Um það veit nefndin ekkert, og jeg býst við því, að hinn hv. þm. (B. Sv.) sje svo sanngjarn, að hann krefjist þess ekki af verðlagsnefnd, að hún sje alvís. Þetta hefir enginn kært fyrir nefndinni, en það er þó hverjum innan handar.