11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í C-deild Alþingistíðinda. (3611)

152. mál, landsspítalamálið

Benedikt Sveinsson :

Það hefir verið mikið deilt um það hjer í deildinni, hvar áhuginn væri mest brennandi fyrir þessu máli. Jeg fyrir mitt leyti er viss um, að margir þeirra, sem hafa gengist fyrir þessu, hafa ríkan hug á málinu, og tel ekki ósennilegt, að einhverjir þeirra sjeu fúsir á að vinna kauplaust að undirbúningi þess, til að hrinda því sem best áfram. Mjer kæmi jafnvel ekki á óvart, þótt þeir sæktust beint eftir því. Það er að vísu satt, að ekki er hægt að skylda menn til að gefa vinnu sína, en það er líka í mótsögn við þennan mikla áhuga fyrir málinu, sem altaf er verið að tala um, ef þeir ljetu það aftra sjer frá að sitja í nefndinni, að starf hennar er ekki launað með fje. Jeg er sammála hæstv. forsætisráðherra um að fresta umr. um málið, þangað til vissa er fyrir því, að þeir menn fáist, sem vilja vinna þetta kauplaust. Því að það hljóta allir að sjá, að ekki kemur til mála að fara að skipa sjö manna nefnd, sem á að vinna árum saman, og gjalda hverjum manni 8—10 kr. á dag, eins og dagkaup tíðkast nú.