01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í C-deild Alþingistíðinda. (3622)

173. mál, skólahald næsta vetur

Einar Arnórsson:

Það er sennilega ofraun að ætla sjer að hafa á móti till., sem borin er fram af 12 mönnum í 26 manna samkomu. Vil jeg þó taka fram nokkur atriði, sem mæla á móti því, að hún sje samþ., án ákveðins formála. (B. J.: Hann er kominn.) Það, sem sagt hefir verið í umr., má skilja á tvo vegu. Ræða hv. framsm. (M.P.) virtist miða að því að hvetja stjórnina til að nota heimildina. Ef það er misskilningur minn, bið jeg afsökunar. Það er auðvitað sparnaður að láta skólana hætta. En það hefir komið fram, að skólana má reka með allmiklu minni tilkostnaði en verið hefir. Tökum t. d. hita- og ljóskostnað í Háskólanum. Það má reka hann með því að hita upp að eins 2—3 stofur, og get jeg ekki skilið, að stórfje þurfi til þess. Sama er um lýsingarkostnað. Hann er því minni, sem færri eru stofurnar, og óþarft er að lýsa fleiri en ætlast er til að kent sje í. Vera má, að ekki sje fullkomlega hægt að kenna í öllum deildum í 2 stofum. En það er vel hægt fyrir þá kennara, sem hafa ekki marga lærisveina í tíma, að hafa þá heima hjá sjer. Það er auðvitað ekki hægt fyrir aðra en þá, sem hafa ekki mjög marga. Mjer finst, að úr því að mönnum er goldið kaup, sje rjett að hagnýta vinnu þeirra eftir mætti, og þetta gæti verið vegur til hjálpar, samhliða hinu.

Sama býst jeg við að gildi um mentaskólann. Þar er og sparnaður að nota sem minst húsrúm eftir föngum, og sama herbergið mætti altaf búa við, eina kenslustund eftir aðra, meðan til vinst, því að eitthvað mun jafnan ónotað af hitanum, er sú kenslustund er úti.

Ef gripið verður til þess að loka skólunum, þá er það auðvitað aðallega fyrir kolaskort. Eitt atriði get jeg ekki fallist á. Mjer þykir ólíklegt, að skólanum þurfi að loka nema eitt ár. Nú er það alment talið, að nægilegt eldsneyti sje til í landinu. Þótt ekki sje búið að vinna nóg af því nú, þá er líklegt, að hægt verði að viða að meira eldsneyti á næsta ári. Svo mikið mun vera til af surtarbrandi og öðru, sem gott er í ofna, að ef það er unnið ósleitilega, þá þurfa menn ekki að kala í hel fyrir eldneytisskort. Það má segja, að erfitt geti orðið að flytja það milli landshlutanna. En ef í nauðirnar rekur, má flytja það á mótorskipum, því að vonandi fer ekki svo, að ekki verði hægt að ná í steinolíu, til þess að mótorskip geti komist um sjóinn. Steinolía fæst frá Vesturheimi, og verður því að mun hægra að afla hennar en skipakola frá Bretlandi.

Um það hefir mikið verið talað, að kostnaður yrði mikill fyrir þá, sem koma utan úr sveitum. Það verður að vera fólki sjálfu harðast, ef það treystir sjer til að kljúfa hann. En hjer í bænum er fjöldamargt námsfólk, og ekki elur það minna þótt það fari á mis við skólana. Mjer finst það vera veigamesta ástæðan í þessu máli, að margir nemendur mundu svo að segja missa eitt ár úr æfi sinni, ef skólunum yrði lokað. (B. J.: Þeir mundu lifa eins fyrir því). — Já, einmitt af því, að þeir mundu lifa eins fyrir því. Þeir mundu verða ómagar heima hjá sjer þetta ár og taka svo skólakostnaðinn út seinna. Jeg veit því ekki, hvort það mundi verða plús eða mínus fyrir efnahag aðstandendanna. Mjer er líka sagt, að fólkið sækist mjög eftir því að komast í skólana. Nálægt því 90 stúlkur hafa sótt um kvennaskólann hjer í Reykjavík, þar af 70 stúlkur utan út sveitum. Þetta bendir til þess, að fólk sjái sjer ekki fært að sækja skólana, og vilji fyrir engan mun missa þá. Sparnaðurinn er ljettur á metunum, eins og háttv. þm. Dala. (B.J.) tók fram, og kolin, sem eyðast til skólanna, muna ekki miklu til skipagöngu. Þau skip, sem nú eru í förum, þurfa um 200 smálestir af kolum til annarar ferðarinnar vestur um haf. — Jeg vil því láta þann formála fylgja þessari tillögu frá mjer, sem jeg reyndar veit að þarf ekki, því að jeg veit, að stjórnin grípur ekki til þess að loka skólunum nema mjög brýn nauðsyn krefji.

Stjórnin þarf að afráða þetta mál mjög fljótt, til þess að nemendur geti skipað hag sínum eftir því, hvað afráðið verður. Það er mjög bagalegt fyrir þá að vita hvorki af nje á, því að sjálfsagt er það frjett orðið út um alt land, að tillagan sje komin fram. — Það vildi jeg og leggjaáherslu á, að skólunum mætti slíta nokkru fyr að vorinu til en venjulega, t. d. um páskaleytið. Fyrst er það, að nemendur fara frekar að slá slöku við nám sitt þegar vorar, og meiri freisting fer að verða fyrir þá að vera úti. Í öðru lagi geta þeir þá komist heim til sín og farið eitthvað að starfa. Að vetrinum til er lítið um störf, svo að hætt er við, að mestur tíminn lenti í iðjuleysi. Hinir, sem próf ætla að taka, verða þá hvort sem er að fara að lesa undir próf og hafa ekki tíma til að sitja í tímum. — Um matvælabirgðirnar skal jeg ekkert segja. Útlendu matvælin koma að mestu leyti hingað fyrst, og höfum við stjórnarvöld og matvælanefnd, svo að hægt ætti að vera að sjá um það, að ekki flyttist hjeðan burt meira en rjettilegt er. Jeg held því ekki, að nein vandræði þurfi að verða með útlendu matvælin. Innlendar fæðutegundir skal jeg játa að erfitt verður að viða að. Feitmeti verður sjálfsagt af skornum skamti; með mjólkina verður auðvitað verst af öllu. Kjöt kemur hingað vafalaust nægilegt, þótt það verði ekki fyr en seinna. Áreiðanlegt er það, að ekki verður etið meira á öllu landinu þótt skólarnir starfi.

Loks tel jeg sjálfsagt, að stjórnin afráði ekki lokun skólanna án þess að ráðfæra sig við forstöðumenn þeirra, og að stjórnin taki eigi til slíks örþrifaráðs, nema fullkomin og brýn nauðsyn krefji.