01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í C-deild Alþingistíðinda. (3629)

173. mál, skólahald næsta vetur

Sigurður Stefánsson:

Við þessu mátti búast, að þetta mál kæmist á dagskrá. Jeg hefði talið illa farið, ef ekki hefði verið ymprað á því, og er jeg því þakklátur hv. fjárhagsnefnd og hv. fjárveitinganefnd fyrir að koma fram með það. Má líka ætla, að till. verði landsstjórninni kærkomin.

Kolaleysið er talið meðal helstu vandkvæðanna. Þess vegna ætti hæstv. stjórn að gefa þinginu sem nákvæmastar upplýsingar um kolabirgðirnar. Enn hafa ekki birst svo nákvæmar skýrslur, sem jeg hefði æskt.

Ef nú till. verður samþykt, sem jeg geri ráð fyrir, þá þarf stjórnin að ráða fram úr því sem fyrst, hvernig hún hagar skólum í vetur. Menn þurfa að vita með vissu, hve löngu skólahaldi þeir megi búast við. Jeg legg áherslu á það, að menn þurfa að hafa skýlausa vissu um það. Annars gæti það vel fyrir komið, að menn lentu í öngþveiti hjer í Reykjavík, ef skólar væru látnir niður falla fyrirvaralaust. Þetta gæti kann ske komið fyrir um miðjan vetur. Þá sætu menn hjer námlausir og ráðlausir. Jeg vil leggja stjórninni mjög á hjarta, að ekkert má vera óákveðið, ekkert tvírætt um þetta.

Engar ákveðnar upplýsingar höfum við þingmenn fengið um það, hvort kolabirgðirnar muni hrökkva. Þótt hjer í Reykjavík sjeu nokkrar birgðir, þá má ekki hugsa sem svo, að þær verði allar brúkaðar hjer. Meira eða minna hlýtur að verða flutt hjeðan. Mjer er kunnugt um, að einn af stærstu kaupstöðum landsins er nú alveg kolalaus. Svo mun vera um fleiri.

Jeg felst alveg á, að mjög gerlegt sje að takmarka skólahald að þó nokkru leyti. Það, sem jeg legg áhersluna á, er það, að fólk viti vissu sína fyrirfram. Ákvarðanir stjórnarinnar þurfa að berast sem fyrsl út um land.

Jeg get ekki fallist á þau ummæli hv. Dala. (B.J.), að ógerlegt sje að takmarka skólahald hjer í Reykjavík, ef einhverjir skólar halda áfram úti um land. Jeg get ekki sjeð, að það sje neitt ósanngjarnt, að þeir skólar starfi í vetur, sem treysta sjer til þess, hvað sem liður landssjóðsskólum hjer í Reykjavík. Hæstv. atvinnumálaráðh. gat um, að bændaskólarnir væru vel undir veturinn búnir, og svo mun vera um fleiri sveitaskóla. Eldsneytisvandkvæðin eru meiri í kaupstöðunum.

Stjórnin geri það, sem hún ætlar sjer að gera, fljótt; það er aðalatriðið. Annars hefði hún nú þegar átt að vera búin að ráða ráðum sínum. Jeg skal hana ekki um það saka. Til þess geta legið ýms rök, meðal annars barndómur eins ráðherrans, sem nú er nýfæddur (S.E ).