01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í C-deild Alþingistíðinda. (3630)

173. mál, skólahald næsta vetur

Sigurður Sigurðsson:

Jeg mun greiða atkvæði með till. Jeg tel miklu betra fyrir stjórnina að hafa slíka heimild, sem hjer er um að ræða, ef ástandið skyldi verða svo, að skólahald verði að láta falla niður. En jeg greiði atkvæði með till. með svipuðum formála og hv. 2. þm. Árn. (E.A.). Í fyrsta lagi geri jeg ráð fyrir, að stjórnin ráðfæri sig við skólastjóra og kennara. Í öðru lagi, að stjórnin og forstöðumenn skólanna gæti alls sparnaðar um kensluna, takmarki húsnæði og hætti skólum fyr að vorinu en venja er til. Í þriðja lagi, að stjórnin geti gefið nokkurn veginn tryggingu fyrir, að ekki verði kolaskortur til skólahaldsins, ef hún afræður að láta skólana haldast. Þessi formáli minn á aðallega við Reykjavíkurskólana.

Jeg lít svo á, að aðalkostnaðurinn umfram það, er venjulegt er, sje að því er snertir eldsneyti og ljósmeti. Kennaralaunin eru hin sömu, hvort sem skólahald verður eða ekki. Jeg efast um, að kennarar myndu kunna því vel að sitja auðum höndum allan veturinn. Jeg efast líka um, að aðstandendur nemenda sleppi nokkru ódýrara, þótt engir skólar verði.

Hvað bændaskólana snertir, get jeg tekið undir með hæstv. atvinnumálaráðherra. Þeir eru sjerstaklega vel undir veturinn búnir. Skólastjórarnir eru báðir dugnaðarmenn og fylgja þeim gamla búmannssið að birgja sig til langs tíma. Í vor tóku þeir upp meiri mó en áður. Jeg tek því sjálfsagt, að þeir skólar starfi í vetur.

Áður en jeg sest niður vildi jeg biðja hæstv. stjórn að athuga, hvort hin „Innilega áskorun“, sem birtist í Ísafold í dag, sje ekki á rökum bygð. Hún er þess efnis, að stjórnin komi í veg fyrir, að stúdentar fari utan í haust. Það getur verið hættulegt að láta marga pilta fara utan, eins og nú á stendur. Þess ætti ekki heldur að vera bein þörf, vegna tilslökunarinnar, sem gerð hefir verið á Garðsstyrknum. Enginn veit, hvað fyrir kann að koma. Danmörk gæti auðveldlega lent í stríðinu. Á þessu vildi jeg vekja athygli stjórnarinnar.

Jeg greiði atkvæði með till., og vænti þess, að henni verði beitt sem vægast.