01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í C-deild Alþingistíðinda. (3632)

173. mál, skólahald næsta vetur

Björn Stefánsson:

Það hefir verið tekið fram, að sparnaðurinn muni ekkert aðalatriði vera í þessu máli, en samt sakna jeg þess, að nefndirnar hafa ekki komið fram með neina áætlun um, hvað skólahald næsta vetur mundi kosta umfram það, sem venjulegt er. Jeg væri því fylgjandi, að skólarnir væru lagðir niður, ef mikið sparaðist við það, en álít hins vegar, að það komi ekki til mála, ef það er að eins smáræði eitt, sem um er að ræða. Jeg hefi átt tal við menn, sem hafa sagt mjer, að það muni ekki kosta nema 5.000 kr. meira en venjul. að reka Mentaskólann í vetur, ef gerðar eru ýmsar sjálfsagðar sparnaðarráðstafanir. Ef þetta er nú rjett, þá virðist ekki koma til mála að fella niður þennan skóla, fyrir svo óverulega upphæð, umfram alla þá tugi þúsunda, sem greiða þarf hvort sem er.

Annars getur verið miklu örðugra að halda uppi einum skólanum en öðrum. Jeg get því ekki fallist á, að rjett sje að skera þá alla niður við sama trog, eins og hv. þm. V.-Ísf. (M.Ó.) virtist halda fram. Það virðist t. d. hart, ef bændaskólana, sem byrgir eru að eldsneyti, ætti að leggja niður vegna þess, að einhverjir kaupstaðarskólar gætu ekki staðist eldsneytiskostnaðinn.

Eitt er það, að þingmönnum þyrfti helst að vera kunnugt um kolabirgðir landsins. Því að kol má ekki nota til skólahalds, ef það yrði til að skapa kolaeklu hjá almenningi. Ef skólahaldið myndi valda kolaeklu hjá almenningi, þá tel jeg það öflugustu ástæðuna til að láta þá niður falla.

Annars vildi jeg spyrja nefndirnar hvort þær hafi enga áætlun gert um sparnaðinn, sem af því myndi leiða að leggja skólana niður. Á jeg þar bæði við sparnaðinn í krónum og tonnatölu kola. Mjer finst eiginlega ómögulegt að taka ákvörðun um málið án þess, að einhver áætlun liggi fyrir um það.