21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í C-deild Alþingistíðinda. (3649)

62. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Fyrirspyrjandi (Stefán Stefánsson):

Að við flutningsmenn berum fram þessa fyrirspurn er af þeim ástæðum aðallega, að við álítum þetta mál svo mikilsvert, að það sje fyllilega þess vert, að grenslast sje eftir, hvort landsstjórnin hefir nokkuð getað að málinu unnið. Enn fremur vil jeg geta þess, að málið var til umræðu á þingmálafundi í Eyjafirði, og kom þar fram eindreginn áhugi fyrir því, að lánstofnun fyrir landbúnaðinn kæmist sem fyrst á. Við höfum því sjeð okkur knúða til að leita upplýsinga hjá hæstv. stjórn um það, á hvern hátt hún hafi unnið að framkvæmd málsins, og hvers vænta má um framgang þess. Okkur er það ljóst, að ýmsir erfiðleikar eru á framkvæmdum í flestar áttir, og þá ekki síður í þessu máli en öðrum, en okkur er ekki síður ljóst, að þegar þessari óáran linnir, sem nú er í öllu viðskiftalífi, þá verði afarnauðsynlegt, að bændum geti gefist kostur á að fá hagkvæm lán til jarðræktarfyrirtækja. Einmitt nú á síðustu árum hafa menn fundið enn betur til þess en áður, hver nauðsyn er á því að afla sjer nýrra jarðyrkjuverkfæra, taka upp nýjar ræktunaraðferðir og, sem sagt, vinna að jarðræktarumbótum í stærri stíl en verið hefir.

Þessar og fleiri ástæður eru til þess, að við teljum brýna þörf á, að málinu verði sint. Skal jeg svo ekki ganga lengra inn á málið, því að jeg treysti hæstv. atvinnumálaráðherra til þess að gefa ljós og greið svör við fyrirspurninni. En, eins og jeg hefi tekið fram, getum við búist við því, að þótt hæstv. stjórn hafi haft áhuga á málinu, hafi ýmiskonar annmarkar og erfiðleikar leitt til þess, að hún gæti ekki leitt málið inn á þetta þing í frumvarpsformi. Annars lít jeg svo á, að það ætti að vera föst regla, að stjórnin skýrði frá aðgerðum sínum í öllum þeim málum, er á undanfarandi þingi hefir verið vísað til hennar, hvort heldur það er með þingsályktunum eða á annan hátt, jafnvel þótt hún sjái sjer ekki fært að leggja þau fyrir þingið í frumvarpsformi.

Þessu virðist mjer að þingið ætti að ganga eftir, svo að það geti haft eftirlit með, eða sje kunnugt um framkvæmdir í þeim málum, sem vísað er til aðgerða stjórnarinnar. Jeg vona, að hæstv. atvinnumálaráðherra taki ekki það, sem jeg hefi sagt, sem neinar ákúrur, því að það er það alls ekki, heldur er það sprottið af því, að jeg vil fá sem ljósasta greinargerð hjá stjórninni hvað þessa fyrirhuguðu lánstofnun snertir, og tel það rjett, að svo ætti einnig að vera um aðrar ályktanir, sem til hennar er vísað.