13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Eins og tekið hefir verið fram þá er hjer um nýja stefnu að ræða, um nýjan skatt til landssjóðs. Þetta er stórt atriði, og nýbreytnisatriði.

Alls vegna álít jeg varhugavert að hafa þetta gjald hátt, — vegna þess, að hjer er um mikla nauðsynjavöru að ræða, og eins vegna þess, að það er óheppilegt að hafa mikið gjald á nauðsynjavöru. (S. E.: Hví hafði þá stjórnin gjaldið?) Vegna þess, að hún taldi það gjald hæfilegt, sem hún fór fram á, og að það mundi ekki nema meiru en álagning verslana þeirra, er vöruna seldu.

Þar sem háttv. framsm. (S. E.) hjelt því fram, að vjer ættum að verða betur settir eftir en áður með verðlag þessarar vöru, þá tel jeg það alls ekki víst. Það er hætt við því, svona í byrjun, að ekki takist eins vel með verslunina eins og þegar gamlir, þrautvanir og enda sjerfróðir verslunarmenn eiga við hana. Jeg hygg því, að það sje mjög hæpið að ætla, að landsmenn verði betur settir.

Brtt. á þgskj. 211 tel jeg góða; hún miðar að því að efla sem fyrst varasjóð verslunarinnar.

Ef mikill hagnaður verður á versluninni, þá má, ef svo líst, hækka gjaldið síðar meir, en að hafa það hátt strax í byrjun er varhugavert.