21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í C-deild Alþingistíðinda. (3650)

62. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Jeg vil reyna að svara fyrirspurn þessari í stuttu máli.

Stjórnarráðið hefir ekki sjeð sjer fært að leggja fyrir þetta hv. þing lagafrv. hjer að lútandi, og eru helstu ástæðurnar til þess þær, er nú skal greina.

1) Tími stjórnarráðsins hefir að miklum mun gengið til þess að sinna hinum margbrotnu og umfangsmiklu málum, sem standa í sambandi við vandræði manna vegna styrjaldarinnar. Þar að auki hefir og orðið að gegna vanalegum störfum í hverri stjórnardeild. Af þessu hefir leitt, að ekki hefir unnist tími til að athuga og undirbúa rækilega umfangsmikil nýbreytnismál, svo sem það, er hjer er um að ræða.

2) Stjórnarráðinu virtist það eigi horfa vænlega við á þessum tímum að útvega fje með þeim lánskjörum, sem ætla verður að haganlegust sjeu fyrir lánstofnun landbúnaðarmanna, og þá eigi heldur gott útlit fyrir, að verðbrjef slíkrar stofnunar yrðu vel útgengileg sem stendur.

3) Samgönguteppan við útlönd hefir verið þess valdandi, að stjórnarráðið hefir eigi í þessu máli getað stuðst við útlenda reynslu. Má í þessu sambandi drepa á það, að t. d. í Þýskalandi er til fjöldi lánstofnana fyrir landbúnaðinn. Eru slíkar stofnanir ýmist grundvallaðar á hlutafjárframlagi eða samvinnufjelagsskap (cooperation) o. fl. Af slíku mætti eflaust fá margar góðar bendingar, sem nú hefir eigi verið kostur á

Að öðru leyti vil jeg taka það fram, að landsstjórnin mun að sjálfsögðu gera sitt ítrasla til að greiða götu þessa máls í framtiðinni, eftir bestu föngum.