13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Magnús Kristjánsson; Hæstv. landsstjórn hefir nú lýst skoðun sinni á málinu, og hefir háttv. Nd. fært málið til verra vegar, ef svo má að orði komast, og breytt frv. frá því, sem það var í öndverðu af hálfu landsstjórnarinnar.

Mjer finst, að það megi öllum ljóst vera, að þótt háttv. Nd. hafi breytt frv. í þetta horf, þá sje þessi háttv. deild fullkomlega bær um að breyta því til batnaðar, og jeg vil enda segja, að það sje beinlínis skylda hennar að bæta úr þeim göllum, sem hún sjer á frv.

Jeg vil, með örfáum orðum, víkja að ummælum háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), þar sem hann var að reikna það, hversu miklu þessi skattur mundi nema.

Jeg býst við því, að reikningur sá, er hann flutti, hafi verið rjettur eftir þeim grundvelli, sem hann var bygður á, en þótt svo sje, þá þarf reikningurinn ekki þar fyrir rjettur að vera. Og orsökin til þess er augljós. Háttv. þm. (S. E.) gerði ekki ráð fyrir því, að notkun steinolíunnar færi vaxandi, en það er mjög mikilvægt atriði. Þori jeg óhikað að fullyrða það, að steinolíunotkun vex mjög mikið, vex að minsta kosti um helming, og jeg hygg, að það sje ekki ofmælt, þótt gert sje ráð fyrir því, að steinolíunotkun landsmanna nemi að minsta kosti 60 þúsund fötum strax er heimsstyrjöldin hættir og viðskiftalíf vort og framleiðsla kemst í eðlilegt horf, En þetta breytir algerlega reikningi hins háttv. þm. (S. E.), breytir honum svo mjög, að ekkert verður á honum að byggja.

Af þessu leiðir það, að jeg get ekki fallist á þá kenningu þm. (S. E.), að eins gott sje fyrir landssjóð að fella niður tollinn og að lækka hann. Og þótt tollurinn nemi ekki meiru en 100 þús. kr. á ári, þá er það svo stór upphæð, að landssjóðinn munar um hana, og það er ekki nema rjett að meta hana einhvers. Jeg vænti þess, að háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sje mjer samdóma um það, að í þessu sje þó nokkur tekjuauki.

Jeg sje ekki ástæðu til að lengja frekar umræður um þetta; málið er svo ljóst og einfalt, að jeg treysti því, að báðar brtt. þær, sem bornar hafa verið fram, verði samþyktar.

Þá má leiða fram mörg rök og dæmi þess, hversu það væri óheppilegt, ef frv. væri samþ. óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd., og því er ekki nema eðlilegt, að því verði breytt.