27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í C-deild Alþingistíðinda. (3663)

155. mál, rannsókn hafnarstaða

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Háttv. fyrirspyrjandi (Sv.Ó.) hefir nú endurtekið það, sem sagt var í vetur við umræðurnar um þingsál.till., um þörfina fyrir þessa rannsókn og áhuga Austfirðinga á því, að hún fari fram. Þá voru allir á eitt mál sáttir um, að þetta væri sanngjarnt mál, enda hefir landsstjórnin haft áhuga á að leiða það í framkvæmd.

Svarið við fyrirspurninni er í fám orðum það, að en hefir ekki fengist maður til að framkvæma verkið. Orsökin er einkum sú, að nú er einum verkfræðingi færra í þjónustu landsstjórnarinnar. Sá verkfræðingurinn, sem frá fór, hefir einkum fengist við slík störf sem þetta. Hann hefir t. d. gert mælingar á Þorlákshöfn. Vegamálastjórinn hefir ekkert fengist við hafnarannsóknir, enda verið önnum kafinn við önnur störf. Aðstoðarmaður hans er nýkominn frá prófborðinu. Vitamálastjórinn hefir ekki heldur getað sint þessu. Hann og fleiri hafa bent stjórninni á, að heppilegast væri að fá mann frá útlöndum. En það er ekki hægt fyr en stríðinu lýkur. Annars hefir landsstjórnin nýlega fengið vilyrði fyrir, að Kirk, verkfræðingur, taki rannsóknina að sjer og byrji á verkinu þegar í haust, ef veðurfar verður ekki því óhagstæðara. Þessi maður er þektur að dugnaði og vel hæfur til verksins, og má búast við, að hann verði ekki ófáanlegur. Frekari skýringar álít jeg ekki þörf.