27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í C-deild Alþingistíðinda. (3664)

155. mál, rannsókn hafnarstaða

Fyrirspyrjandi (Sveinn Ólafsson):

Jeg er hæstv. atvinnumálaráðherra þakklátur fyrir svarið. Jeg get kannast við, að eftir atvikum er það skiljanlegt, að ekki er lengra komið. En hins vegar hafði jeg vænst upplýsinga um, hvort ekki myndi farin sú leið, sem Jón Ísleifsson, verkfræðingur, benti á, að verkfræðingur landsins gerði ýmsar mælingar á þessum stöðum, áður en sjerstakur hafnarverkfræðingur er sendur á stað. Það gæti ljett undir starf hafnarverkfræðingsins.

Hæstv. ráðherra (S.J.) gat þess, að Jón Ísleifsson hefði verið öðru starfi háður. (S.J.: Hann var ekki í þjónustu landsins). Veit jeg það, en hitt hafði jeg heyrt, að hann hefði boðið þjónustu sína.

Við hvert ár, sem líður, án þess að þessi rannsókn sje leyst af hendi, tapast stórfje úr þjóðarbúinu. Þótt hægt sje að láta sjer lynda, eftir atvikum, að ekki er enn koið lengra framkvæmdum þessa máls, þá verð jeg jafnframt að taka það skýrt fram, að þessi rannsókn þolir eigi bið. Og þess vænti jeg, að stjórnin láti eigi lenda við áformin ein um að senda Kirk, hafnarverkfræðing, austur í haust. Jeg skal leyfa mjer að benda á, þótt það sje þessu máli óskylt, að nú er verið að undirbúa næstu vetrarvertíð, með því að rannsaka siglingaleiðina inn á Berufjörð, í því skyni að sjá, hvernig takast mætti að lýsa skerjaleiðina milli Papeyjar og lands. Menn hugsa sjer sem sje að nota hann fyrir landtökustað næstu vetrarvertíð, þótt það sje að tefla á tvær hættur, og við sje búið stórslysum á skipum og mönnum, meðan sú leið er eigi lýst. Því er eðlilegt, að menn biði með óþreyju rannsókna þeirra, sem landstjórninni er ætlað að láta framkvæma. Það mun verða mönnum fyrir austan ánægjuefni að heyra, að þegar er viðbúnaður hafinn og að kostur er á manni til rannsóknanna. En enn meira ánægjuefni mun sjálf framkvæmdin verða þeim.