13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í C-deild Alþingistíðinda. (3677)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg vil skjóta því til háttv. fyrirspyrjanda, að jeg skil ekki síðari hluta tillögu hans. Ef átt er við, að flutningsgjaldið eigi altaf að vera hið sama á sama tíma, þá getur það verið talsvert athugavert. En ef átt er við það, að flutningsgjaldið með sama skipi eigi altaf að vera hið sama, þá getur það líka verið varhugavert. Svo mundi enginn einstakur maður fara að. Við skulum taka t. d. Botníuferðina. Hún var að eins farin vegna steinolíunnar. Ef nú hefði ekki komið eins mikið af steinolíu og búist var við, var þá ekki betra að hlaða skipið öðrum vörum, þótt með lægra flutningsgjaldi væri, en að láta vanta á farminn? Það er algengt, að flutningsgjald sje mjög mismunandi með sömu skipsferð. Fasta taxta má setja á skip, sem hafa fasta áætlun en alls ekki önnur skip. Seinni hluti dagskrárinnar finst mjer því óþarfur.

Stjórninni sjálfri má liggja það í ljettu rúmi, hvort uppbótin verður 5 eða 8 kr. á olíufat. En meira en 5 kr. má varla greiða af fje verslunarinnar. Helst ætti að greiða uppbótina alla úr landssjóði. En mig furðar á því, að háttv. fyrirspyrjandi (St.St.) skuli ekki heimta 12 kr. uppbót, úr því að hann vill koma jöfnuði á. Það ætti hún að vera, borin saman við flutningsgjaldið með Sterling.

Annars hefi jeg engu við skýrslu hæstv. atvinnumálaráðh. að bæta.

Það er að eins eitt atriði, sem jeg vildi minnast nánar á. Hv. fyrirspyrjandi (St.St.) var að vitna í 2. gr. laga um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum, frá 1917, og taldi ráðstöfun stjórnarinnar lagabrot. Þetta er algerður misskilningur. ívilnunin, sem þar um ræðir, á að eins við flutningsgjald á vörum, sem landssjóður fær frá útlöndum. Greinin kemur ekkert við vörum, sem landsstjórnin flytur með skipum sínum fyrir kaupmenn. Enda væri það afarhættulegt, ef landsstjórninni væri heimilað eða skipað að flytja vörur fyrir kaupmenn, fyrir það verð, að þeir geti selt sama verði hvar á landinu sem er. Þetta var því mikill misskilningur hjá hv. ftn (St.St.