13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í C-deild Alþingistíðinda. (3684)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Gísli Sveinsson:

Hvað efni þessa málssnertir, hefði jeg vel felt mig við, að umræðurnar enduðu með einhverri ályktun. Þó hefði jeg kosið, að hún væri nokkuð öðruvísi en rökstudda dagskráin. Jeg tel ekki ráðlegt að binda uppbótina, ef einhver ætti að vera, við ákveðna upphæð, og alveg er dagskráin orðin einskisverð ef seinni hlutinn er feldur aftan af henni, eins og háttv. fyrirspyrjandi (St.St.) nú virðist vilja. Það er einmitt mergur þessa máls, að einhverjum föstum reglum verði fylgt um flutningsgjöld með skipum stjórnarinnar.

Af þessum sökum sje jeg mjer ekki fært að greiða atkvæði með dagskránni, hvorki eins og hún var, og því síður eina og hún er nú orðin eftir þessa afturtöku, Hvað viðvíkur því, hvort taka megi slíka ályktun sem þessa út af fyrirspurn, skal jeg benda á það, að hv. 1. þm. Árn. (S.S.) flutti fyrirspurn hjer á þinginu í sumar, sem afgreidd var með rökstuddri dagskrá. Að vísu var sú ályktun feld, en það breytir engu. Afstaða þingmanna til málsins rjeð því. Jeg tek þetta fram til þess að benda á það, að áður á þessu þingi er eitt dæmi þess, að ályktun hafi verið gerð út af fyrirspurn í þessari hv. deild. Fyrir skömmu varð líka ágreiningur um það í hv. Ed., hvort rökstudd dagskrá skyldi teljast ályktun í svipuðu tilfelli. Það kom undir úrskurð forseta þar í deildinni, og hann úrskurðaði, að dagskráin yrði ekki talin ályktun, svo að hún kom til atkvæða. Jeg get ekki sjeð, að hægt sje að gera upp á milli dagskrár þeirrar, sem hjer hefir verið borin fram, og tillögu hv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem hann nú hefir borið fram munnlega, um að vísa málinu til stjórnarinnar. Ef eitt er ályktun, þá er líka annað ályktun.