13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í C-deild Alþingistíðinda. (3685)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg skal að eins taka það fram, að það hefir ekki komið neitt það fram hjá stjórninni, sem bendi til þess, að hún hafi breytt öðruvísi en rjett var. Ef þingmenn lesa skýrslu þá, sem hjer hefir verið gefin, þá hljóta þeir að ganga úr skugga um það, að engin ástæða er til að áfellast stjórnina fyrir þessar ráðstafanir. Svo segi jeg ekki meira um það.

Viðvíkjandi deilunni um ályktun skal jeg taka það fram, að jeg átti nokkurn þátt í samningu þingskapanna. Þá var einmitt talsvert um þetta rætt, og var til þess ætlast, að út af fyrirspurn væri ekki leyft að bera undir atkvæði rökstudda dagskrá, ef í henni feldist sjerstök ályktun. Það mun vera rjett, að bæði fyr og síðar hafi verið bornar upp rökstuddar dagskrár, sem að þessu leyti brjóta í bág við þingsköpin. Aftur á móti er hitt ekki rjett, sem hv. þm. Dala. (B.J.) hjelt fram, að það að vísa til stjórnarinnar væri sama og að gera ályktun. Í 42. gr. stjórnarskrárinnar er það beint tekið fram, að ef þingdeild þykir ekki ástæða til að gera ályktun í einhverju máli, þá geti hún vísað því til stjórnarinnar. Tillaga hv. þm. Árn. (S.S.) er því fyllilega samkvæm bæði stjórnarskrá og þingsköpum.