13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Magnús Torfason:

Jeg vil að eins leyfa mjer að fara örfáum orðum um brtt. á þgskj. 211. Hún fer ekki fram á, að lækkaður verði skatturinn, heldur að meira af honum fari í veltufjár- og varasjóð en gert er ráð fyrir í frv.

Eftir því, sem mjer skildist á ræðu háttv. 1. landsk. þm. (H. H.), þá er hann með því, að svo verði.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) taldi víst, að gera mætti ráð fyrir, að 60,000 tunnur af steinolíu flyttust til landsins á ári. Jeg álít, að það sje helst til lágt til getið, því að, eins og kunnugt er, hefir bifbátum fjölgað mjög á síðustu tveim árum, og margir eru í smíðum, og þegar útlendingar fara aftur að sækja hingað til landsins, þá mun þurfa miklu meiri steinolíu heldur en nú.

Og það er einmitt með útlendingana fyrir augum, sem jeg get verið með skatti þessum, því að annars mundi hann ekki verða annað en útflutningsgjald á fiskafurðum. Þetta er svo ljóst mál, að ekki ætti það að valda deilum.

Annars get jeg ekki fylgt háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) að málum í því, að skattur þessi sje hreinasta smáræði, því að hann mundi brátt verða alt að því helmingur vörutollsins. Og hann er góður að því leyti, sem hann mundi leggja þingi og stjórn þá skyldu á herðar að sjá fyrir, að olíuverslunin kæmist hjer í betra horf, og útveguð yrðu nýtileg tæki til flutninga og geymslu.