06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í C-deild Alþingistíðinda. (3696)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Það stendur vist á dagskránni, að atvinnu- málaráðherrann svari fyrirspurn þessari, sem hjer liggur fyrir, og skal jeg reyna stuttlega að svara þessari fyrirspurn, er hv. þm. Ísaf. (M.T.) ber hjer fram, þótt jeg hins vegar sje honum samdóma um það, að fyrirspurnin taki til stjórnarinnar í heild sinni. Að því er snertir einstök atriði í ræðu hv. flm. (M.T.), þá mun hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) svara þeim, eftir því sem ástæða er til, en jeg tala hins vegar um málið alment og reglur þær, er fylgt hefir verið.

Mjer finst það ekki vera nema eðlilegt, þótt hv. þingdeildarmenn vilji fá að vita reglurnar, og það er líka væntanlega vegna þess, að þeir hafa leyft fyrirspurnina.

Hv. flm. (M.T.) drap á það, að nú á síðari tímum hefði úthlutunarreglunum verið breytt, en það er ekki alls kostar rjett; þær hafa miklu fremur náð meiri festu heldur en að þeim hafi breytt verið. Það var ekki nema eðlilegt, að stjórnin yrði fyrst eins og að þreifa sig áfram, en þrátt fyrir það hefir altaf verið sama meginreglan, öðrum megin vörubirgðirnar, og hinum megin þarfirnar á hinum einstöku stöðum, eftir því er landsstjórnin vissi best, af skýrslum, er henni voru sendar, sem raunar bárust nokkuð seint, svo að mikið varð að fara eftir því, er þörf taldist, að áliti stjórnarinnar.

Skömmu eftir síðastliðið nýár var tekin upp sú regla, að úthlutun varanna fór fram gegnum sveitarstjórnarvöldin, bæjarstjórnir eða sýslunefndir; áður var lítið eitt af vörum, aðallega af sykri, selt til kaupmanna hjer í Reykjavík, en það kom brátt í ljós, að sú úthlutun kom misjafnlega niður, ekki af því, að kaupmenn seldu einstökum mönnum sjerlega misjafnt, heldur af því, að sumir menn gengu búða á milli og keyplu hjá mörgum sama daginn. Við því varð að gera, og þá var það ráð tekið að fela sveitarstjórnarvöldunum úthlutunina, og þau kusu síðan menn sjer til aðstoðar og ráðuneytis. Þetta held jeg að hafi gefist vel, alment skoðað.

Síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp hafa, eftir því sem unt er, vörur verið látnir úti eftir pöntunum sveitarstjórnarvaldanna. Samt vil jeg biðja menn að gæta vel að því [því að það snertir nokkuð ræðu hv. flm. (M. T.)], að Ísfirðingar höfðu fengið nokkru minna af vörum en ýms önnur hjeruð, þegar fregnir bárust hingað í vetur um, að hætta væri á því, að ís væri að leggjast að Norðurlandi; þá var það ráð ráðið að senda allmiklu meira en ella hefði verið á flesta þá hafnarstaði landsins, þar sem veruleg íshætta er, eða á svæðið frá Horni að Langanesi. Það var aðallega matvara, sem þangað var send. Stjórnarráðið varð að líta svo á, að það væri miklu minni hætta á því, að vöruflutningar stöðvuðust til Reykjavíkur og annara íslítilla eða íslausra hafna heldur en þangað og því væri rjettara að birgja Norðurland svo, að það væri ekki í neinni verulegri hættu, þótt ís legðist þar að landi.

Þannig er þá sú meginregia, er stjórnarráðið hefir viljað fara eftir. Vitanlega má það vera, að einhver mistök hafi þar átt sjer stað, alveg eins og þau hafa að líkindum átt sjer stað einhversstaðar hjá sveitarstjórnarvöldunum, en um það vantar skýrslur, og eins hygg jeg það, að skýrslur vanti um hitt, að úthlutun landssjóðsvaranna hafi farið illa úr hendi af hálfu landsstjórnarinnar, og ræða háttv. fyrirspyrjanda (M. T.) sannar alls ekkert í því efni.

Það hefir ekki verið venja mín að eyða löngum tíma fyrir hv. þingdeild með ræðuhöldum, en vegna þess, að mál þetta hefir mikla þýðingu, þá vil jeg reyna að rekja það nokkru nánar og reyna að gera það sem ljósast fyrir alla.

Vil jeg því með örfáum orðum minnast á aðalflokkana.

Fyrsti flokkurinn er matvaran.

Það hefir verið safnað skýrslum um land alt um matvöruforða landsmanna. Fyr en þær skýrslur komu var það ekki fyllilega ljóst, hvar þörfin var brýnust, eða hve mikið ætti að senda til hvers staðar; áður varð að fara eftir umsögn hlutaðeigandi hjeraðsvalda. Við það að athuga skýrslurnar kom það í ljós, að matvöruforði var langsamlega minstur í Reykjavík, og það er eðlilegt; þar eru samgöngur bestar, og hefir nærri því mátt treysta því, að ferð sje á mánuði hverjum. Um eitt skeið var matvælaforðinn svo lítill hjer í Reykjavík, að matvælanefnd bæjarins taldi það beinlínis hættulegt, hversu mikið væri flutt burt úr bænum, en það, hversu þá var sent mikið burt, stafaði af því, að menn óttuðust, að ís legðist að landinu, eins og jeg mintist nýlega á. Síðan í maí, að talningin fór fram, hefir verið hægt að fullnægja pöntunum þeim, er komið hafa, og óhætt mun mjer að fullyrða það, að

Ísfirðingum hafi ekki verið neitað um neina matvörupöntun, er þeir hafa gert, enda vildi hv. fyrirspyrjandi (M.T.) ekki halda því fram, að svo hefði verið.

Samkvæmt hagskýrslunum fyrir árið 1913 eiga að nægja 150 kg. um árið fyrir manninn, og eftir því hefir úthlutuninni verið hagað, og ekki hafa komið fram kvartanir yfir því, að skamturinn væri ónógur. Og nú um skeið hafa nógar matvörubirgðir verið fyrirliggjandi til úthlutunar, af þeim matvörutegundum, sem landssjóðsverslunin annars hefir pantað. Jeg fæ því eigi sjeð, að matvöruúthlutun landsstjórnarinnar sje á neinn hátt vítaverð.

Önnur vörutegundin er sykurinn. Þar hefir verið tekin upp sú regla, og er hún gerð með hliðsjón til hagskýrslna fyrir árið 1913, að áætla 2 kíló á hvern íbúa í sveit til 9 vikna, en á hvern íbúa í kaupstaðar eða sjávarsveit 3 kíló til 9 vikna. Viðvíkjandi þessum tveim vörutegundum hafa þá reglurnar verið þær, sem jeg hefi nú greint.

Þriðja vörutegundin er kaffið. Af því hafa altaf verið nægar birgðir, svo að það hefir allaf verið hægt að fullnægja öllum óskum, er hafa komið fram um það.

Þá er fjórða vörutegundin, steinolían.

Áður en skýrslur komu til stjórnarráðsins um það, hve mörg hestöfl væru rekin á skipum og bátum á hverjum stað með olíu, var úthlutun hennar hagað svo, að olían var aðallega send eftir því, hvernig stóð á með vertíðir, hvort þær voru að byrja, stóðu sem hæst eða voru að enda, og þeir staðir, þar sem vertíðin var að byrja, voru einkum látnir sitja fyrir olíunni, því að hennar var talin þar brýnust þörf, en þó með þeirri von, að fljótt væri hægt að senda hinum, er hennar óskuðu. En út af því hefir brugðið meir en ætlað var, mest vegna þess, að olíuskip hafa farist á leið til landsins, en líka vegna tafa á þeim. Það hafa aldrei verið nógu miklar birgðir af steinolíunni, og því hefir orðið að haga afhendingunni eftir því, hvar þörfin var brýnust í þann og þann svipinn.

Fimta vörutegundin er kolin. Fram í aprílmánuð var mest af kolunum látið af hendi handa botnvörpungum, sem skorti kol til vorvertíðarinnar, einnig handa brauðgerðarhúsum og opinberum stofnunum. En nú hefir engu verið hægt að miðla nú um nokkurt skeið, og Reykjavíkurbær síðan fengið kolaskip.

Loks er sjötta og síðasta vörutegundin, saltið. Af þeirri vörutegund hefir landsstjórnin að eins fengið eina skipshleðslu, og mun um úthlutun hennar hafa farið sem næst því, sem háttv. fyrirspyrjandi (M.T.) skýrði frá, að það gekk til Austfjarða og Vestfjarða aðallega, þar sem þörfin var brýnust. Einnig fjekk eitt botnvörpuskip dálítinn hluta til síldveiðitímans.

Hygg jeg, að rakalítið sje að telja þessa úthlutun óheppilega eða rangláta.

Jeg vona, að jeg hafi þá gert allljósa grein fyrir reglum þeim, er fylgt hefir verið um úthlutun landssjóðsvaranna, og þá þykist jeg hafa svarað fyrirspurninni sjálfri, eins og hún liggur fyrir.

Jeg skal ekki fara að rekja það, hvernig stjórnarráðinu hefir hepnast þetta, enda eru naumast gögn til, til þess að gera það svo, að vel sje.

Það má öllum vera skiljanlegt til fullnustu, að meðan forðinn var lítill — og það er hann enn af sumu — þá muni ekki vera auðið að fullnægja öllum óskum og kröfum, sem fram kunna að koma, og eins má það öllum vera ljóst, að á meðan allar skýrslur vantaði þá var ekki til fulls hægt að fylgja þeim meginreglum út í ystu æsar, sem stjórnin hafði sett sjer.

Hitt þekkja menn svo vel úr daglega lífinu, að mönnum hættir ofmjög til þess að telja sjer íþyngt, eða telja sig afskifta sjerstaklega, án þess að hirða um rök eða rjettar skýrslur. Og má vera, að slíkt megi heimfæra til þessa máls gagnvart landsstjórn og hjeraðastjórnum.

Jeg býst við því, að hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) muni skýra nánar ýms einstök atriði í ræðu háttv. fyrirspyrjanda (M.T.), og læt jeg mjer því nægja þetta svar um spurninguna alment.