23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Gísli Sveinsson:

Að minni skoðun getur deildin vel við till. hv. fjárveitinganefndar unað í heild sinni. Þótt stjórnin fárist út af því, að nefndin hefir sumstaðar farið lengra en stjórnin hafði ætlast til, og þótt einstakir þingmenn sjeu hálfsárir út úr því, að ekki hefir verið hægt að taka tillit til alls þess, sem þeir hafa fram að bera, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að nefndin hafi leyst allvel úr þessu vandamáli. Skýringarnar í nál. eru glöggar, og enginn vafi á, með hvaða rökum brtt. eru gerðar.

Viðvíkjandi 1. brtt. háttv. nefndar vildi jeg skjóta inn stuttri athugasemd. í nál. sje jeg, að ætlast er til, að 500 krónurnar, sem við hagstofustjórann er bætt, verði persónuleg launaviðbót, að því er virðist helst, vegna hans ágætu hæfileika til að gegna þessu embætti. En mjer virðist öldungis óþarfi, og jafnvel rangt, að telja þetta persónulega launaviðbót. Hagstofustjórann á að leggja að jöfnu hinum skrifstofustjórum stjórnarráðsins, um launin eins og annað. Hann er að lögum og í framkvæmd þeim jafnsettur. Hagstofan stendur beint undir ráðuneytinu, sem hver hinna skrifstofanna, og þess vegna eiga kjör embættisins að vera hin sömu. Vitanlega er núverandi hagstofustjóri alls góðs maklegur, en þó er óþarft að binda þessa launahækkun við hans nafn.

Jeg tók nú reyndar svo eftir, sem háttv. frsm. (M. P.) rökfærði þetta líka rjettilega, sem sje þannig, að hagstofustjóranum ætti að gera jafnt undir höfði og hinum skrifstofustjórunum, eða var ekki svo? Og er jeg honum og háttv nefnd þá sammála.

Hjer er, með þessari brtt. nefndarinnar, gerð nokkur tilraun til að færa þetta í rjett horf, þótt fult jafnrjetti sje að vísu ekki enn komið á, hvað launakjörin snertir. Annars var það aðallega annað atriði, sem kom mjer til að standa upp.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hefir, svo sem háttv. deild heyrði áðan, gefið meðmæli sín með þessari litlu fjárveitingu, fyrri veitingu, til brúargerðar á Jökulsá á Sólheimasandi, því að meðmæli verð jeg helst að skoða það, þar sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hefir áður verið málinu fylgjandi hjer í þinginu, þótt hann ef til vill hafi nú gleymt því. Öllum háttv. þingdm. mun vera kunnugt, hvernig máli þessu víkur við. Á þinginu 1911 voru sett lög um, að byggja skyldi brú þessa, og hefir síðan ekki annað vantað til þess, að verkið kæmist í framkvæmd, en sjálfsagða fjárveitingu þingsins. Hitt er líka kunnugt, að hjer í þinginu hafa verið háð langvinn hjaðningavíg um brúargerð þessa og brú á Eyjafjarðará. Hefir þessi óheillabarátta orðið til þess, að hvorug brúin er enn komin á. Þetta er hið mesta ólag, og slæmt til þess að vita, að hvort fyrirtækið um sig hefir þannig orðið til þess að tefja fyrir öðru. Sjálfsagt er þörf á að fá báðar þessar brýr, en þó tel jeg, að Jökulsárbrúin eigi að ganga fyrir, bæði af því, að þegar eru til lög um hana, og af því að hún er eflaust enn nauðsynlegri.

Nú hefir stjórnin tekið upp í fjárlagafrumvarp sitt fjárveitingu til brúargerðar á Eyjafjarðará, og hefir hún þar farið eftir tillögum hins fyrverandi verkfræðings. Þótt margir hjer á þingi sjeu sömu skoðunar sem jeg, að brú á Jökulsá sje nauðsynjegri en brú á Eyjafjarðará, þá mun jeg þó sætta mig við niðurstöðu fjárveitinganefndar, að fjárveitingin til brúarinnar á Eyjafjarðará sje látin halda sjer, eins og hún er í stjórnarfrv., en síðara árið sje sett fyrri fjárveiting til brúargerðar á Jökulsá. Við þetta mun jeg eftir atvikum sætta mig, segi jeg, þótt jeg hefði kosið skiftinguna öðruvísi, enda hefir þetta þegar orðið að samkomulagi milli mín og nefndarinnar. Á þennan hátt verða brýrnar þó nokkurn veginn samferða, og deilan um það, hvor fyrir eigi að ganga, með því kveðin niður. Jeg þarf ekki að taka fram, hvílík þörf er á samgöngubótum hjer á landi, og hversu gagnlegar þær eru; um það munu flestir sammála, og ekki vantar áhuga á þeim, enda má telja sæmilega sjeð fyrir samgöngum á sjó á næsta fjárhagstímabili, samkvæmt tillögum samgöngumálanefndar, eftir því sem ástæður leyfa. Það má gera ráð fyrir, að reglulegar strandferðir verði stopular þetta tímabil, og því mun heppileg sú stefna, sem samgöngumálanefnd hefir tekið, að bjarga við samgöngunum með ströndum fram með allstórum bátum, sem hver hafi samgöngur að annast í sínum landshluta. Er jeg fyrir mitt leyti ánægður með tillögur samgöngumálanefndar um strandferðir með fram suðurströnd landsins. Mun þar nú orðið svo í garðinn búið, bæði af háttv. samgöngumálanefnd og þeim, sem ferðanna eiga að njóta, að viðunanlega mun vera sjeð fyrir samgöngum á sjó fyrir þann hluta landsins og í samræmi við aðra landshluta.

Öllum mun kunnugt um, hve erfiðar eru samgöngur á landi hjer að sunnan og austan; hættulegar ár yfir að fara og annar farartálmi.

Kem jeg þá aftur að ræðu hæstv. fjármálaráðh. (B. K.). Hann varpaði því fram, að stofnað hefði verið til brúargerðar á Jökulsá »í vitleysu«, málið væri órannsakað, og að af mætti komast með miklu minna fje en um hefði verið talað. Þessi ummæli hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) eru öll í lausu lofti bygð. Hinn fyrverandi verkfræðingur, sem ekki hefir haft orð fyrir að draga mjög fram hlut Sunnlendinga, grannskoðaði brúarstæði á Jökulsá; komst hann að þeirri niðurstöðu við rannsókn sína, að vel mætti brúa ána, en að það mundi kosta um 78,000 kr. Getur verið, að þar skakki einhverju á annanhvorn veginn; en fjarstæða er, að brúin verði bygð fyrir einar 10,000 kr., og það er óskiljanlegt, að hæstv. fjármálaráðherra skuli vilja bera þetta fram hjer í salnum, þótt það kunni einhvern tíma að hafa borið fyrir hann í draumi; í vöku hefir það aldrei getað vitrast honum.

Jeg sagði áðan, að jeg skoðaði ummæli hæstvirts fjármálaráðherra (B. K.) sem meðmæli með málinu, og bygði jeg það á því, að á þingi 1915 greiddi hann við nafnakall atkvæði með 78,000 kr. fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá. Þetta stendur svart á hvítu í umræðuparti þingtíðindanna það ár, neðri deild, bls. 550. Annað hvort er, að þessi viðurkendi sómamaður hefir greitt þá atkvæði fyrir svona hárri fjárveitingu gegn sannfæringu sinni, þvert ofan í »rannsóknir« hans, eða að sannfæring hans hefir ávalt verið sú, að svona mikið fje þyrfti til brúargerðarinnar.

Jeg get vel trúað því, að þótt hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hafi orðað þessa firru sína, að ekki þyrfti nema 10,000 kr. til að brúa Jökulsá, við einhvern Mýrdæling, eins og hann sagði, þá hafi þeim hinum sama ekki þótt taka því að vera að mótmæla þessu; slík fjarstæða hafi honum fundist það vera.

Það mun annars ekki þurfa að eyða fleirum orðum að þessu, því að jeg hygg, að allir háttv. þingdm. sjái og skilji, hvernig í málinu liggur.