13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Háttv. 1. landsk. þm. (H. H.) kvaðst að eins mundu verða með frv., svo fremi það væri að eins bráðabirgðaráðstafanir.

Jeg lít nú svo á, að hjer muni ekki koma til greina, fyrst um sinn, kostnaður við að útvega skip og geymslustaði, þótt frv. yrði samþykt, svo að ekki þyrfti, að svo komnu, að taka þesskonar með í reikninginn.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) komst svo að orði, að með skatti þessum hefði stjórnin leitt asnann inn í herbúðirnar. Jeg læt þessu ósvarað, því að jeg veit eigi, við hvaða asna eða herbúðir hann á. Jeg hygg annars, að það sje engin nýlunda, að lagt sje gjald á verslun. Að minsta kosti hefir það viðgengist hingað til, að gjald nokkurt hvíli á allri verslun. Hjer er að eins um ofurlítið hærra gjald að ræða en venja er til, og er það gert í þeirri von, að varan fáist á þennan hátt með betri kjörum en verið hefir, en alls ekki til þess að íþyngja einum atvinnuvegi landsins. En auðvitað má lengi deila um það, hvað hæfilegt sje að hafa gjaldið hátt; hygg jeg þó, að oft hafi hjer í þinginu verið deilt um lægri upphæð en þá, sem gjald þetta mundi nema, sem tekjur fyrir landssjóð, þótt farið væri eftir því, sem upphaflega stóð í stjórnarfrv.