06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í C-deild Alþingistíðinda. (3700)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

3700Atvinnumálaráðherra (S.J.):

í hinni skýru, löngu og velviljuðu ræðu sinni vill hv. þm. Vestm. (K.E.) skýra frá því, að landsstjórnin hafi bygt á hlaupafregnum við úthlutun verslunarvara landssjóðs. Jeg verð að lýsa yfir því, að þessi staðhæfing hv. þm. (K. E.) er gersamlega röng. Hin önnur atvik, er jeg drap á, lutu að flutningstækjum og hafís fyrir Norðurlandi, en ekki að hviksögum.

En þar sem hv. þm. (K. E.) sveigði því að landsstjórninni, að hún úthlutaði vörunum eftir því, hve duglegir menn væru að mæla fram með sjer og liggja í eyrum hennar, þá ætti hlutskifti Vestmannaeyinga ekki að vera svo rýrt, eftir dugnaði sýslumanns þeirra. (K.E.: Síminn var slitinn lengst af). Já, jeg átti von á ákúrum fyrir það, að hann var ekki bættur þegar í stað; ákúra um það hefði verið í samræmi við sumt annað í ræðu þessa hv. þm. (K.E.: Jeg veit ekki betur en að gert hafi verið það, sem unt var).