06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í C-deild Alþingistíðinda. (3701)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Fjármálaráðherra (B.K.):

Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir svarað þeirri fyrirspurn, er fyrir liggur. En af því að hv. fyrirspyrjandi (M.T.) hvíslaði því að mjer, að mjer væri tryggara að koma hingað og hlusta á það, sem talað yrði til mín, þá hefi jeg gert það. En annars vil jeg taka það fram, að stjórnin hefir skift þannig verkum með sjer, að úthlutun verslunarvara landssjóðs heyrir undir 2. skrifstofu í stjórnarráðinu og hæstv. atvinnumálaráðherra. Þó að stjórnin öll í sameiningu geri ályktanir um allar stærri ráðstafanir, svo sem skipakaup, innkaup á vörum og lántökur, þá er það þó ekki allra ráðherranna að skera úr, hvert sjerhver sekkur eigi að fara. Öðru máli er að gegna, þó að einstakir menn snúi sjer til einhvers ráðherranna og biðji hann um að hafa áhrif á eitthvert mál, svo sem hv. þm. Ísaf. (M.T.) hefir farið á leit við mig. Það tel jeg eðlilegt og sjálfsagt.

Hv. fyrirspyrjandi (M.T.) gat þess, að hann fyndi ástæðu til að minna fjármálaráðh. á, að það væri skylda hans gagnvart kjördæmi sínu og sjer að sjá um, að það hefði nægar vörur að tiltölu við önnur hjeruð. Þetta getur vel verið. En þegar jeg gekk í stjórnina, gekk jeg ekki í hana sem flokksráðherra, heldur með þeim ásetningi að gera alt, sem í mínu valdi stæði, til að sjá um bjargráð alls landsins, án nokkurs tillits til flokka. Jeg þóttist sjá, að það væri heillavænlegast, að ráðherrarnir væru ekki að rífast innbyrðis með flokkshug á bak við sig. Einmitt þess vegna hefir samvinnan verið svo góð.

Það er auðvitað, að allir geta ekki verið ánægðir með úthlutun á vörum, sem skortur er á. Þá finnst mönnum þeir vera afskiftir, þótt það sje ekki á rökum bygt. (K.E. Menn hafa samanburð við önnur hjeruð að byggja á). Jeg skal víkja að því síðar.

Menn hafa talað um úthlutun eftir föstum reglum. Í raun og veru var ekki hægt að fylgja neinni annari reglu en þeirri að hjálpa þar, sem brýnust nauðsyn var, á meðan skortur var á vörunum. Það var aðalhugsunin að bjarga, þangað til meira kæmi af þeim.

Um steinolíuna er það að segja, að ekki var hægt að úthluta henni eftir hestöflum eingöngu, heldur varð að taka tillit til annara ástæðna. Meðal annars varð að taka tillit til þess, hvort vertíð var að byrja eða enda. Í Vestmannaeyjum var aðalvertíðinni lokið, en á Austfjörðum var hún að byrja. (K.E.: Í Vestmannaeyjum var vertíðin að byrja fyrir 18 báta). Og þar sem ekki var búist við, að samgöngur við Norður- og Austurland yrðu greiðar, varð að sjá um, að þangað færi sæmilega mikið. Jeg játa fúslega, að Vestmannaeyjar voru eini staðurinn, sem oflítið fjekk að tiltölu. Aftur á móti fjekk Ísafjörður fullkomlega það, sem honum bar. En þegar lítið er af einhverri vörutegund og von er á meiri birgðum, verður að bjarga þar, sem þörfin er brýnust í svip. Má því deila um það, hvort alstaðar sje rjettlátlega úthlutað.

Hæstv. atvinnumálaráðh. hefir þegar svarað flestu, og get jeg því hlaupið yfir það, er hann svaraði. Þar sem hv. fyrirspyrjandi (M.T.) skýrði frá, að einar 60 smálestir af korni hefðu komið til Ísafjarðar fram eftir öllu, þá get jeg ekki dæmt um það, sakir ókunnugleika. Jeg hefi ekki fylgst með því, hve margar smálestir hafi farið á hvern stað, en jeg geri ráð fyrir, að hefði stjórninni verið kunnugt um, að skortur væri á korni á Ísafirði, þá hefði hún gert ráðstafanir til þess, að meira korn yrði þangað flutt. Jeg geri og ráð fyrir því, að engin fyrirstaða hafi verið að fá korn eftir að meiri birgðir komu til landsins.

Hv. fyrirspyrjandi (M.T.) gat þess, að útgerðin á Ísafirði hefði fengið offáar tunnur af steinolíu þangað til „Bisp“ kom. Þetta getur satt verið, en það var ekki hægt að úthluta þangað meiri olíu, með því að hún var ekki til. Jeg reyndi, eftir tilmælum hv. fyrirspyrjanda (M.T.), að hafa þau áhrif á úthlutunina, að Ísafjörður fengi nægar birgðir, en jeg hætti loks að skifta mjer af því, er mjer ofbuðu kröfurnar. Með „Bisp“ komu um 4.500 tunnur, og Ísafjörður fjekk fjórðung þeirra. Og skrifstofustjórinn á 2. skrifstofu skýrði mjer svo frá, að hann hafi sannað fyrir hv. fyrirspyrjanda, (M.T.) að Ísafjðrður hafi fengið meira en honum bar. Eftir því hafa Ísfirðingar ekki ástæðu til að kvarta.

Kem jeg þá að saltinu. Jeg vil taka það fram, að jeg veit ekkert um brjef, er koma á 2. skrifstofu, en þangað fara brjefin frá hv. þm. Ísaf. (M.T.) og Vestm. (K.E.). Þau koma ekki á mína skrifstofu, og jeg vil ekki, samvinnunnar vegna, spyrja 2. skrifstofu um brjef, er hún hefir fengið. (K.E.: Ætlast ekki til þess). Skýri að eins frá verkaskiftingunni.

Hv. þm. Ísaf. (M.T.) átti tal við mig og bað mig að sjá um, að Ísafjörður fengi salt. Lofaði jeg að tala um það við atvinnumálaskrifstofuna. Þá var ákveðið, að „Bisp“ og „Ceres“ skyldu fara til Englands og sækja salt. Var Ísafirði ætlað af þeim förmum 5–600 smálestir. Var jeg einn heima ráðherranna um það leyti, er skipint lögðu af stað til útlanda. Nú var „Ceres“ skotin í kaf, og ruglaði það öllum áætlunum um úthlutunina, þegar um það var að ræða að bæta úr brýnustu þörfinni og ekki var nóg til þess. Samt vissi jeg ekki um neina breytingu á því, hvað Ísafjörður skyldi fá margar smálestir, fyr en jeg heyrði, að „Bisp“ ætti að fara til Austfjarða og skipa þar upp salti. Var sú ráðstöfun gerð af öðrum.

Hv. fyrirspyrjandi (M.T.) skýrir svo frá, að Ísafjörður hafi loks fengið 200 smálestir af salti, en mjer er skýrt frá, að hann hafi fengið 300 smálestir. Þrátt fyrir óhöppin munar því ekki meiru en 2–300 smálestum. En það var þó ekki tilætlun mín, að Ísafjörður fengi minna en í fyrstu var ákveðið, þrátt fyrir það, að „Ceres“ var skotin í kaf. Verð var aldrei ákveðið, heldur ætlast til, að landsstjórnin seldi vöruna fyrir kostnaði. (M.T.: Hefi ekki gert neinn ágreining um það). Jú, hv. fyrirspyrjandi (M.T.) fann að því, að saltið hefði orðið dýrara en búist var við, nefndi 25%. (M.T.: Kvartaði ekki undan því). Jú, jeg skrifaði þetta hjá mjer. Jeg hygg því, að stjórnin eigi ekki æði miklar ásakanir skilið fyrir úthlutunina á salti og steinolíu.

En að þeir, sem fylgjast ekki með því, sem gert er í stjórnarráðinu, geti haldið, að úthlutunin fari ekki sem rjettlátlegast fram, er skiljanlegt. (K.E.: Erum farnir að fylgjast með).

Þá er steinolíufarmurinn, er kom með „Francis Hyde“ og „Lagarfossi“. Hv. fyrirspyrjanda (M. T.) fanst Ísafjörður vera afskiftur með þann farm, en í „Francis Hyde“ átti landsstjórnin að eins umráð yfir 100 tunnum. (M.T.: Átti að hafa öll umráð yfir öllum farminum). Og yfir „Lagarfoss“-farminum hafði landstjórnin heldur engin umráð.

En þótt svo hefði verið, þá hefir Reykjavík verið svo afskift með steinolíu, að hún hefði átt að fá allan farminn, til þess að fá jafnmikið sem Ísafjörður að tiltölu.

Jeg vil ekki svara hv. þm. Vestm. (K. E.). Jeg viðurkenni, að aðalatriðið í ræðu hans var á rökum bygt. Vestmannaeyingar hafa fengið oflítið af steinolíu. Það er hið eina, sem með rjettu má ásaka stjórnina fyrir.