06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í C-deild Alþingistíðinda. (3705)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Karl Einarsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir engu svarað af því, sem jeg sagði; hann svaraði að eins út í hött, svo að jeg þarf ekki að fjölyrða um það. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) tók það fram, að að því er úthlutun olíu snertir hefði verið fylgt þeirri reglu að athuga það, hvort vertíð ársins í þeirri veiðistöð, sem úthluta átti, væri að byrja eða enda.

Þetta kann vel að vera rjett í aðaldráttunum, en jeg viðurkenni ekki, að þeirri reglu hafi verið fylgt að því er Vestmannaeyjar snertir, enda virtist hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) viðurkenna, að það væri rjett hjá mjer. Það er ekki altaf, að bátar haldi áfram um vorvertíðina, en þó gera margir þeirra það í Vestmannaeyjum, og eins um sumarvertíðina; og um vorvertíðina nú voru það margir bátar, sem vildu halda áfram, eins og skýrslan ber með sjer — sem sje 18 bátar alls — og er mjer sagt, að í sumum sýslum landsins sjeu ekki fleiri bátar, sem haldið er úti um sumarvertíðina, og hafa þó fengið talsvert af olíu.

Hæstv. fjármálaráðherra (B.K.) sagði, að það eina, sem hefði verið á rökum bygt, hefði verið það, sem sagt var um olíuna. Á hann þar væntanlega við það, sem hv. fyrirspyrjandi (M.T.) og jeg sögðum, því að fleiri höfðu ekki talað. Jeg veit ekki, hvort þetta á að skilja bókstaflega, því að hæstv. atvinnumálaráðherra treysti sjer ekki til að hnekkja neinum af þeim skýrslum, sein jeg gaf.

Þá gat jeg þess, að í Vestmannaeyjum hefði verið sykurlaust; var það eftir ný afstaðna mislinga, er gengið höfðu. Í öðru lagi upplýsti jeg, að ekkert hveiti hefði verið þar til um lengri tíma og ekki heldur rúgmjöl. Hvort einstakir menn kunna að hafa átt eitthvað af þessum vörum skal jeg ekki um segja, en bæði mun það þá hafa verið, að þeim mönnum hefir ekki verið kunnugt um það, hvar neyðin var helst fyrir, og svo hitt, að þeir hafi ekki haft fram yfir það, sem þeir hafa sjálfir þurft að nota.

Jeg hefi því litið svo á, að skýrsla mín standi óhrakin, og vil jeg ekki taka það til mín, sem hefir verið talað um, að hjer væri um smámuni að ræða.

Alt þetta stafar af því, sem hv. þm. Ak. (M.K.) tók fram, að ekki hefði verið fylgt neinni aðalreglu við úthlutunina. Úthlutunin hefir orðið að meira eða minna leyti handahófsverk, eftir því, hverjir hafa verið duglegastir að liggja í eyrum stjórnarinnar. (Atvinnumálaráðh.: Það er ekki rjett). Það er sannað.