06.08.1917
Efri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í C-deild Alþingistíðinda. (3708)

100. mál, úthlutun landsverslunarvara

Forseti:

Út af umræðum þeim, sem hjer hafa orðið um það, hvort bera megi undir atkvæði rökstudda dagskrá eftir umræður um fyrirspurn, þá vil jeg geta þess, að í niðurlagi 31. gr. þingskapanna segir svo, að við slíka umræðu megi eigi gera neina ályktun. Það er því rjett, sem hæstv. forseti Sþ. (K.D.) tók fram, að dagskrá þessa má ekki bera upp, ef í henni felst ályktun frá þingsins hálfu.

En þá kemur til álita, hvaða skilning beri að leggja í orðið ályktun. Í 42. gr. stjórnarskrárinnar segir svo, að þyki þingdeildinni ekki ástæða til að gera ályktun um eitthvert málefni, þá geti hún vísað því til ráðherrans.

Jeg verð því að líta svo á, að ályktun geti ekki talist nein samþykt, nema sú, sem fer fram á, að eitthvað verði framkvæmt utan þings. Það eitt er ályktun frá þingsins hálfu.

En hjer er ekki um neinar framkvæmdir utan þings að ræða, að eins samþykt að fela einni af nefndum þingsins að taka mál til íhugunar.

Það getur því alls ekki heyrt undir það, sem felst í orðinu „ályktun“ í 42. gr. stjórnarskrárinnar og 31. gr. þingskapanna.

Tel jeg því fulla heimild til þess að bera upp dagskrá þessa.