13.07.1917
Efri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

Prentkostnaður Alþingistíðinda

Forseti:

Jeg tel mjer skylt að gera það kunnugt hjer í hæstvirtri þingdeild að nú er lokið öllum undirbúningi viðvíkjandi prentun Alþingistíðindanna. Jeg og skrifstofustjóri höfum margsinnis rætt um það í vetur, að brýn nauðsyn beri til að gæta sem mest sparnaðar og hagsýni um útgáfukostnað á umræðum Alþingis, þar sem laun setjara hafa stórum hækkað og pappírsverð margfaldast. Hefir skrifstofustjóri íhugað það málefni mjög vandlega og fundið ýms ráð til prentsparnaðar með breyttri tilhögun og niðurskipun, og væntir þess, að sá sparnaður muni nema minst 20—30 örkum, miðað við umræður Alþingis 1915. Engu að síður verður niðurstaðan sú, að allur útgáfukostnaður Alþingistíðinda frá þessu þingi hlýtur að fara að verulegum mun fram yfir 60 þúsundir króna. Tel jeg rjett að vekja fulla athygli á því, að hverja hálftímaræðu kostar nú 30— 40 krónur að gefa út. Er vert, að allir háttv. þingmenn hafi þetta vel í huga, og fyrir þá sök mun jeg ekki

boða til þingfunda ef mjög fátt og lítið er fyrir hendi til að taka á dagskrá. Enda eru það yfirleitt hyggindin mest framan af þingi, meðan allar nefndir standa í mestu annríki, að tefja þingmenn sem minst frá þeirri nytsömu vinnu, sem er svo miklu heilladrýgri í hverju vandamáli en langt þref á þingfundum.