18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (3724)

Prentkostnaður Alþingistíðinda

Forseti:

Áður en gengið er til dagskrár finn jeg ástæðu til að skýra hv. þingmönnum frá máli, er tekur til þingsins, en aðallega kemur til kasta forsetanna að ráða fram úr, sem sje um útgáfu Alþingistíðindanna. Sakir verðhækkunar á pappír og kauphækkunar til prentara m. m. er prentunarkostnaður þingtíðindanna 1917, samkvæmt skjölum, er hjer liggja frammi til athugunar, áætlaður yfir 60 þús. kr., sem er helmingi meiri upphæð en nokkru sinni áður. Út af þessu hefir komið til tals að prenta að svo stöddu einungis þingskjölin, en fresta prentun á umræðunum, án þess að það þyrfti að koma í bága við gr. þingskapanna. En með því að fastur samningur um slíkt fyrirkomulag hefir reynst ófáanlegur, gæti af því leitt, að þingskjölin fengjust ekki prentuð svo greiðlega, sem þörf er á, til þess að störf þingsins gangi fram tálmunarlaust. Eftir atvikum má því búast við, að ekki verði hjá komist að semja um prentun allra þingtíðindanna með venjulegum hætti. En á hinn bóginn mun verða reynt að spara kostnaðinn eftir föngum, með hagkvæmari tilhögun á prentuninni, svo sem með því að draga saman í eina heild umræður um hvert mál í báðum deildum þingsins.

Í þessu sambandi vil jeg leyfa mjer að leiða athygli að því, hversu áríðandi það er að forðast óþarfar málalengingar, og vænti þess, að háttv. þingmenn geri sjer far um að vera stuttorðir og gagnorðir í ræðum sínum.