02.07.1917
Sameinað þing: 1. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

Minst Magnúsar landshöfðingja Stephensen

Áður en tekið væri til starfa mælti aldursforseti:

Áður en hið háa Alþingi tekur til starfa, tel jeg skylt að minnast eins af mikilhæfustu mönnum landsins, er látist hefir eftir að slitið var síðasta þingi. Þessi maður er Magnús landshöfðingi Stephensen, er andaðist 3. apríl þessa árs. Hann var fæddur 18. október 1836. Tók embættispróf í lögfræði 4. júní 1862. Eftir nokkurra ára dvöl í Kaupmannahöfn, sem aðstoðarmaður í dómsmálastjórninni, var hann 19. ágúst 1870 settur dómari við landsyfirdóminn og fjekk veitingu fyrir því embætti 13. apríl 1871. Skipaður landshöfðingi 10. apríl 1886, en fjekk lausn frá embætti 27. janúar 1904. Formaður milliþinganefndar í skattamálum, er skipuð var 10. nóv. 1875. Konungkjörinn alþingismaður frá 1877—1886. Þingm. Rangæinga 1903—1907. Forseti sameinaðs Alþingis 1883 og neðri deildar 1905 og 1907.

Sakir stöðu sinnar og afburða hæfileika átti hann um aldarfjórðung afarmikinn þátt í stjórnmálum landsins, jafnt lagasetningu sem umboðsstjórn, og ljet sjer einkar ant um að koma skipulagi á fjárhaginn, er landið hefir búið að fram á síðustu tíma.

Vil jeg skjóta þvi til háttv. þm. að heiðra minningu hans með því að standa upp.

Tóku þingmenn undir orð aldursforseta með því að standa upp.

Þessu næst kvaddi aldursforseti sjer til aðstoðar sem skrifara þá

Jóhannes Jóhannesson, þm. Seyðf. og Þorleif Jónsson, þm. A.-Sk.