05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þessari háttv. deild getur ekki verið þetta mál í aðaldráttunum ókunnugt. Aðalatriði þess, sem hjer er um að ræða, er að gera tilraunir til að vinna upp gæðaland, sem tapast hefir af völdum nátttúrunnar. Það hafa þegar verið gerðar tilraunir til að fá þessu framgengt, og eins og deildinni er kunnugt voru veittar til þess verks 15000 kr. í gildandi fjárlögum.

En nú kemur málið fram í frumvarpsformi, en ekki að eins í fjárlagafrv., og stafar það af því, að svo er ráð fyrir gert, að hjeraðsbúar leggi nokkuð af mörkum til þessa verks. Hjer er vitanlega stigið stórt og óvenjulegt spor til að græða aftur upp þetta tapaða land. Og þótt ekki sje hægt að benda á nein hliðstæð dæmi, þá er hjer um svo mikið að ræða, og svo miklar vonir tengdar við framkvæmd verksins, að búast má við, að þingið taki vel í málið. Það er sem sje ætlast til þess í frumvarpinu, að hlutaðeigandi hjeruð greiði að eins ¼ kostnaðarins, og hefir það verið rætt á sýslufundum heima í hjeraði og fengið þar samþykki. Ráðuneytinu hefir þótt rjett að ljetta sem mest undir með hjeruðunum, en hefir látið málið koma fram í frumvarpsformi til að tryggja það, að hið áskilda tillag þeirra verði int af hendi.

Vegna þess, að þetta mál er háttv. þingmönnum þegar nokkuð kunnugt, og þingmenn hlutaðeigandi kjördæmis eiga sæti hjer í deildinni, hirði jeg ekki um að hafa lengri framsögu.

Jeg leyfi mjer að eins að óska þess, að málið fái að ganga til 2. umr. og verði vísað til landbúnaðarnefndar.