16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (3789)

132. mál, kaup í landaurum

Björn Stefánsson:

Af því að jeg ætla að greiða atkvæði með dagskránni, en álít það hins vegar ekki neina fjarstæðu, sem farið er fram á í frv., vil jeg segja nokkur orð. Jeg get best trúað því, að úr því ráðaleysi og flækju, sem launamálið er komið í, verði sú leið hin líklegasta til þeirrar niðurstöðu, sem bæði almenningur og embættismenn geta unað við, sem frv. bendir á. En jeg álít, að málið sje ekki nægilega undirbúið til þess, að hægt sje að leiða það til lykta á þessu þingi. Verðlagsskráin er orðin úrelt, og verður því að semja nýjan grundvöll fyrir samningu verðlagsskrár og taka bæði ýmsar tegundir út úr, sem þar eru nú, og bæta öðrum inn, bæði innlendum og útlendum, ef hún á að geta orðið sá grundvöllur, sem laun embættismanna verða greidd eftir. En hjer er um það vandaverk að ræða, sem vonlaust er að verði viðunanlega af hendi leyst á þessu þingi. Til þess þarf nákvæman undirbúning og rannsókn hagstofunnar.

Ef verðlagsskrá ætti einnig að verða grundvöllur til að gjalda eftir öll opinber gjöld og skatta, þá kemur til greina, hvort hún þarf ekki að semjast í tvennu lagi eða þær að vera tvær, önnur fyrir landbúnað, en önnur fyrir sjávarútveg.

Svo getur farið eitt ár, að t. d. væri hallæri, eða því sem næst, í sjávarsveitum en góðæri í landsveitum og hátt verð á öllum landafurðum; þá væri ranglátt að láta sjávarútvegsmenn borga skyldur sínar og skatta eftir verðlagsskrá, sem hátt verð á landafurðum hefði hleypt upp.

Þetta horfir eins við fyrir landbændum, þegar svo stæði á, sem fyrir getur komið, að harðindi sjeu í landsveitum, en kann ske sama ár góð aflabrögð og hátt verð á sjávarafurðum. Þá mundi bændum erfitt að borga gjöld sín eftir verðlagsskrá, sem t. d. síldar- eða lýsisverð og fleiri sjávarafurða hefði hleypt mjög upp. Jeg vildi einungis benda á þetta til að sýna, að komið getur til mála að hafa verðlagsskrárnar 2 eða jafnvel fleiri. En þrátt fyrir þessa annmarka á frv. þá skal jeg taka það fram, að jeg álít það enga fjarstæðu, sem fram kemur í því, heldur þess vert, að stefna þess sje tekin til nánari rannsóknar, og hefi gefið þessar bendingar í því skyni.