02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (3791)

88. mál, veiting læknishéraða

Magnús Pjetursson:

Jeg verð að segja, að mjer þykir hálfleitt að standa upp og tala fyrir tómum stólum. Jeg veit ekki, hvort hv. deild er að færa sönnur á mitt mál, að þetta frv. sje ekki þess vert, að um það sje rætt, en mjer finst það sennilegt.

Hv. flm. (S. S.) byrjaði með að segja, að jeg væri með eintóma útúrsnúninga og útúrdúra, og vildi því næst reyna að hrekja ástæður þær, er jeg færði móti frv., en það tókst honum ekki. Það eitt, sem jeg hjó eftir hjá honum, var, að hann fór algerlega rangt með það, sem jeg sagði, eins og honum er tamt. Hann sagði, að jeg kvæði presta þá, er um brauð sæktu, vera vana að skýla úlfinum. Jeg sagði, að þeir ljetu þá vanalega sem mest bera á kostum sínum. Eins og jeg hefi einu sinni áður drepið á hefir þm. (S. S.) lengi verið það gjarnt að leggja manni orð í munn, til að geta fjargviðrast út af þeim á eftir. Annars þykir mjer vænt um að sjá, hve fljótur hann er að snúast, því að í fyrri ræðu sinni sagði hann, að læknaefnunum þýddi ekki að ganga með kognaksflösku í vasanum, þegar þeir ferðuðust fyrir kosningar, en í seinni ræðunni sagði hann, að þeir ættu alls ekki að ferðast. Þetta sýnir, hve hugsun hans er á ringulreið. Annað, sem sýnir, að hv. þm. (S. S.) er að snúast, er það, að hann sagði í fyrri ræðu sinni, að almenningur ætti að kjósa lækna af því að landlækni og landsstjórn væri ekki trúandi til að veita embættin, en í síðari ræðunni sagði hann, að sjálfsagt væri að leita álits landlæknis, áður kosning færi fram. (S. S.: Jeg sagði, að menn gætu það sjálfsagt). Þótt hv. þm. hafi sagt það bara þannig, sýnir hann þó berlega með því, að hann leggur eitthvað upp úr áliti landlæknis. (S. S. Fyr má nú rota en dauðrota). Annars verð jeg að segja það, að hv. þm. (S. S.) notaði að vanda mjög óþingleg orð, í síðara hluta ræðu sinnar. Hann gat þar um lækna, sem kunnir væru að því að hafa stútað fleirum en þeir hefðu hjálpað til lífs. — Jeg stansa við þetta, því að þetta eru eftirtektarverð orð frá þingmanni. Þótt hann sje að tala hjer fyrir kjósendur sína, þykir mjer ólíklegt, að þeim þyki það hugnæmt. Það er lítið um rök hjá hv. þm. (S. S.), eins og við var að búast af honum. Hann treystir landsstjórninni ekki til að veita læknisembættin, og segir, að margar misfellur hafi oft verið á veitingum hennar. Þetta getur verið, en mjer er nú spurn með prestana; álítur hv. þm. (S. S.), að engar misfellur hafi orðið á embættaveitingum þeirra, síðan farið var að kjósa þá ?

Jeg vil kveða svo ramt að, að engin trygging er fyrir því, að meiri hluti kjósenda vildi hafa sama lækni, og þá yrði að skjóta málinu til landsstjórnarinnar og fá hana til að hjálpa upp á sakirnar. Það gæti líka komið fyrir, að það yrði aðeins minni hluti, sem kysi lækni.

Jeg býst við, að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) svari fyrir sig, og sleppi því þeim hluta af ræðu hv. flm. (S. S.). En jeg vil leyfa mjer að skjóta því til flm., að hann sagði að hægt væri að benda á marga lækna, sem ætti að vera búið að reka frá. Jeg ætla ekki að skora á flm.

(S. S.) að tilgreina. nöfn þessara lækna hjer í deildinni, heldur utan þinghelginnar, svo að þeir geti tekið því eins og vera ber, látið hann sæta maklegri ábyrgð fyrir. Sem sagt, jeg skora á flm. (S. S.) hjer í heyranda hljóði, að hann, í stað þess að vera með dylgjur hjer innan þinghelginnar, nefni opinberlega nöfn þessara lækna, svo að þeir geti rekið rjettar síns á honum að lögum.

Tel jeg mjög ósæmilegt af hv. þm. (S. S.) að nota þinghelgina til þess að ráðast með ókvæðisorðum á heila embættismannastjett, ef hann síðar hefir ekki hug til þess að gera slíkt hið sama á almenningsvettvangi.