17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Ottesen:

Það mun nú ekki hafa mikla þýðingu að hafa langar umræður um þetta mál; flestir munu hafa kynt sjer það og fengið um það ákveðna skoðun. Jeg skal þess vegna ekki ganga langt inn á málið, enda hefi jeg því síður ástæðu til þess, sem 3 úr meiri hluta nefndarinnar hafa tekið til máls og bent á, hvers vegna meiri hlutinn sjer sjer ekki fært að fara lengra, og hverjum hann telur rjett að veita uppbót og á hverjum grundvelli. Það er auðvitað þörfin, sem hjer kallar að. En til þess að framfylgja þeirri hugsun að bæta úr þörfinni, sannri þörf, mun ekki auðráðið að finna aðra leið heppilegri; þótt sumir felli sig ekki vel við hana, þá hygg jeg samt, að hún megi eftir ástandinu teljast vansalaus.

Mjer skildist svo á hæstv. forsætisráðherra, að hann teldi óhætt að ganga lengra fjárhagsins vegna, og það má vel vera, að svo sje. Það hefir þó heyrst úr sömu átt, að lán landssjóðs væru nú orðin svo mikil, að erfitt mundi að fá ný lán, nema með því að veðsetja landið eða eignir þess, en nú verður að taka lán á lán ofan, þegar atvinnuvegirnir bregðast og gjaldþol almennings þar af leiðandi þverrar. En það klingir óspart hjá sumum, að það sje ekkert annað en taka lán. Það er náttúrlega alveg rjett, að gott er og sjálfsagt að taka lán til ýmsra framkvæmda, og eins til þess að ljetta undir með mönnum þegar illa lætur í ári, en það verður þó að gæta hófs og fara varlega, því að einhvern tíma kemur að skuldadögunum.

Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) sagði, að erfitt mundi að ákveða, hvað væru »verulegar tekjur« hjá framleiðendum. Á þinginu 1915 var þó gengið í þessa átt, og ráðherrann, sem þá var, hefir sagt mjer, að engum vandkvæðum hafi verið bundið að framfylgja þeim lögum. En fyrst að hann gat það þá, og var þá einn, sýnist mjer, sem ekki muni þetta vandameira stjórninni nú, þar sem hún er þó skipuð 3 mönnum. Jeg held þess vegna, að þetta sje ekki nema grýla. Það er vitaskuld, að menn græða ekki á framleiðslu nú, en samt er það svo, að menn, sem lifa við búskap, munu betur kljúfa fram úr en þeir, sem lifa í sjávarþorpum án framleiðslu, svo að frá því sjónarmiði má uppbótin þykja rjettlát.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) mintist á það, að vjer nokkrir þm., sem hann nefndi, hefðum skift um skoðun frá því í vetur. Hjer skjátlast háttv. þm. (M. P.) hrapallega. Vjer vitum það allir, að þessu máli var flaustrað af á síðasta þingi á síðustu stundu, í óvild margra. Þær till., sem fram komu þá frá mjer og öðrum þm., sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) nefndi, bar því að eins að skoða sem tilraun til þess að draga úr uppbótinni, án þess að þær sýndu nokkuð um það, að við teldum ekki sanngjarnt, eftir atvikum, að gengið hefði verið lengra í sömu átt, að því er undantekningar snertir o. fl. Þessi tilraun tókst samt ekki, og því greiddi jeg og fleiri atkvæði móti málinu. En þar fyrir eru samt orð þeirra manna, sem segja, að ekki sje vansalaust að láta till. meiri hluta nefndarinnar ganga nú fram, að eins slagorð. Það segir sig sjálft, að þótt mistekist hafi á þingi í vetur, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að slíkt megi leiðrjetta nú.

Læt jeg svo lokið máli mínu, með þeirri ósk, að till. meiri hluta nefndarinnar fái framgang.